10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1923

Guðjón Guðlaugsson:

Það er fyrir hönd samvn. samgm., sem jeg ætla einkum að segja nokkur orð. Það eru þessar litlu breytingartill. á þingskjali 215 við 13. gr. C. 2, sem eru í tveimur liðum a. og b. Um a-liðinn verð jeg að geta þess, að nefndinni þótti rjettara að einskorða ekki upphæðina við 100000 kr., heldur að hún mætti vera það hæst, þ. e. til bátaferðanna.

Liðurinn b., um að fella í burtu Grímseyjarbátinn, er aðeins samræmis vegna. Þar sem upphæðinni er alls ekki skift milli annara báta, áleit nefndin ekki rjett að gera undantekningu um þennan eina bát. En nefndin var í einu hljóði meðmælt því, að Grímseyingar fengju þennan styrk á sínum tíma.

Við strandferðirnar gerði nefndin enga breytingu, en hún athugaði þó það mál frá ýmsum hliðum, eins og sjá má á nefndarálitinu. Hún bar sig saman við framkvæmdarstjóra E. Nielsen. Samdi hann uppkast að nýrri áætlun fyrir þetta ár, en ljet það vera fyrir árið 1923, þar sem nefndin lagði til, að strandferðirnar byrjuðu ekki fyr en um lok næsta þings.

Nefndin sá, að strandferðir Sterlings voru ærið dýrar. Kostuðu þær síðasta ár yfir 300000 kr.

Hún reyndi því að draga úr kostnaðinum með því að fækka ferðunum, ekki einungis árið 1923, heldur einnig yfirstandandi ár og í því skyni fjekk hún hr. Nielsen til þess að semja nýja áætlun fyrir Sterling. Hvað snertir næsta ár, þá sló nefndin því föstu, að ferðir byrjuðu um sama leyti og nú, og því lægi eigi á að semja þá áætlun fyr en þing kæmi saman. Um ýms önnur atriði, svo sem viðkomustaði o. fl., þarf eigi að tala; læt mjer nægja að vísa til nefndarálitsins um það, t. d. um hafnir á Gilsfirði og þess háttar. En það er eitt atriði, sem ástæða er til að geta um, og það er það, að nefndin áleit, að 200 þús. kr. væri hæfilegt fje til strandferðanna með þessum sparnaði við að fækka strandferðunum. En þegar málið var krufið betur, þá kom í ljós, að af þessum 200 þús. kr. á að greiða Eimskipafjelagi Íslands 70 þús. kr. Er því ekki hægt að segja, að það sje ósamræmi hjá nefndinni, þó að hún komi eigi með brtt. En úr því að það er orðið ljóst, að 70 þús. kr. fara til Eimskipafjelagsins, þá er athugavert, hvort það geti borið sig, að upphæðin verði eigi hærri en þetta til strandferða. Upphæðin stendur óhögguð af nefndinni, af misskilningi vegna fjárlagafrv. stjórnarinnar. Í fyrra voru veittar 60 þús. kr. til Eimskipafjelagsins, en þær stóðu utan við fjárlögin, sem sje 260 þús. kr. veittar í alt en þar af 60 þús. til Eimskipafjelagsins í aukafjárlögum.

Jeg tel það mjög vafasamt, hvort það er rjett að veita eigi nema 200 þús. kr.; álít frekar að þyrfti að hækka styrkinn. Villemoes og Borg hafa hingað til borið Sterling uppi, og því hefir það eigi gert svo mikið til, hvort upphæðin hefir verið mikil eða lítil.

En það kemur til athugunar, hvort það er rjett, að þessi skip beri Sterling þannig altaf uppi. Mjer finst það æðióviðfeldið, að fyrir skip, sem skráð eru upp á miljón kr., skuli eigi fást, eftir því, sem hr. Nielsen gefur í skyn, nema 300 þús. kr. fyrir Villemoes og 200 þús. kr. fyrir Borg. Jeg er því þeirrar skoðunar, að hækka beri styrkinn um 70 þús. kr., en byggja ekki framvegis á meðgjöf frá Borg og Villemoes. Vildi jeg aðeins vekja athygli manna á því, hvers vegna vantaði brtt. samgöngumálanefndar um að hækka styrkinn.

Hvað viðvíkur flóabátunum, þá er þar sömu sögu að segja. Nefndirnar gerðu uppástungu um sjerstaka upphæð til hvers báts um sig, en nefndunum bar ekki saman og að lokum komst samvinnunefnd að þeirri niðurstöðu, að eigi væri rjett að skifta styrknum. Mundi slíkt aðeins leiða til reipdráttar milli manna. Áleit nefndin að betra væri að sjá það á næsta þingi, hvernig þessu yrði heppilegast fyrir komið, og því leggur hún til, að stjórninni sje gefin heimild til þess að greiða það, sem nauðsynlegt þykir, til allra báta, sem vinna fyrir ríkið, þar til þing kemur saman. Jeg álít þó, að stjórnin geti ekki ákveðið alt upp á sitt eindæmi, heldur aðeins það, sem bráðnauðsynlegt er, og það aðeins frá nýári og til þings. Yfirleitt eru brtt. svo fáar, að þær geta ekki færri verið. Og jeg vil lýsa yfir þeirri skoðun minni á meðferð háttv. fjvn. á greinum þeim, sem til umræðu eru, að jeg er henni öldungis sammála og get glaður samþykt þær. Vildi jeg að svo væri um fleiri.

Það er ein brtt., sem jeg mundi hafa komið fram með, ef hv. fjvn. hefði eigi gert það, en það er 15. brtt. við 14. gr. B. XVII., um utanfararstyrk til forstöðukonu daufdumbraskólans. Hefi jeg haft meiri kynni af skólanum en margir aðrir. Mjer þykir það eitt að till., að mjer þykir upphæðin heldur lág. Konan hefir aðeins fengið einar 800 kr. til náms síðan hún kom að skólanum; þykir mjer þessi upphæð fulllítil. Heyrði jeg einhvern minnast á 2000 kr., en sjálf hefir hún nefnt 1500 kr., og það hefði jeg kosið. Annars skal jeg geta þess, að jeg mun með ánægju samþykkja þennan lið.