25.04.1922
Sameinað þing: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (2014)

90. mál, landsverslunin

Sveinn Ólafsson:

Það er líklega ekki þörf á því að fjölyrða mikið um þetta mál; forlög till. munu þegar ráðin. Það hefir bæði komið fram sókn og vörn í málinu, sem hefir gefið næga ástæðu til þess, að menn áttuðu sig á því. Jeg hefi þó kvatt mjer hljóðs, og er það vegna þess, að mjer hafa þótt tveir hv. þm. taka nokkuð djúpt í árinni, þar sem þeir vildu helst láta landsverslunina alveg hverfa úr sögunni. Hjer á jeg við þá hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) og þm. Snæf. (H. St.). Það var líkt á komið með þeim báðum. Báðir hjeldu því fram, að landsverslunin ætti engan tilverurjett lengur, en það kom ekki fram, á hverju þeir bygðu þessar fullyrðingar. Ræður þeirra voru litaðar af fylgi við einkastjett, kaupmannastjettina, og það leyndi sjer ekki, að þeir meta meira hagsmuni hennar heldur en allrar heildarinnar, almennings, sem landsverslunin vinnur fyrir. Jeg hefi ekkert á móti því, að þeir hugsi um hagsmuni þessarar stjettar, ef það er ekki á kostnað annara, en jeg álít, að allur almenningur hafi gott af landsversluninni.

Það kom fram sú yfirlýsing hjá hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.), að það væri braskað með fje landssjóðs í landsversluninni. Hv. þm. Snæf. (H. St.) gerði svo lítið úr henni, að hann sagði, að ef öll kurl kæmu til grafar, þá væri ekkert eftir af gróðavinningi hennar. Slíkar árásir sem þetta, sem hafa ekki við neitt að styðjast og ekki er reynt að færa nein rök að, þær eru ekki annað en vindhögg út í loftið. Jeg vil spyrja hv. þm. Snæf. (H. St.), hvernig hann ætlar sjer að skýra mál sitt. Reikningar landsverslunarinnar eru glöggir. Hún tók að sjer að birgja landið á erfiðum tímum, og hefir þó grætt mikið fje. Kurlin eru til grafar komin, og niðurstaðan er sú, að gróði verslunarinnar er á þriðju miljón. Þess vegna finnast mjer þessir hv. þm. skjóta dálítið fram hjá markinu. Þessir þm. vilja láta það heita svo, að landsverslunin beri engar byrðar fyrir þjóðina og sje algerlega skattfrjáls. Það eru auðvitað hlunnindi fyrir verslunina að vera skattfrjáls, en því verður þó ekki neitað, að hún hefir goldið ýmsa skatta, og hefði vel mátt nefna þá. Jeg man ekki allar þær tölur utan að, en get þó nefnt, að hún hefir greitt til sendimanna í útlöndum og seðlaskömtunar um 129 þús. kr. þetta er óhætt að kalla skatt eða byrði.

Jeg álít, að rjettur landsverslunarinnar helgist af þremur atriðum:

1. Hún á að fyrirbyggja vöruskort í landinu. þessu neitaði hv. þm. Snæf. (H. St.).

2. Hún gæti verið landinu gróðavegur. þessu neitaði þm. (H. St.) líka, enda þótt skýrslurnar sýni, að hún var og er gróðavegur.

3. Verslunin gæti lækkað vöruverð, auðgað þannig almenning og haldið þannig kaupmönnunum í skefjum. Þessu neitaði þm. (H. St.) sömuleiðis, en jeg veit, að hún hefir gert þetta og gerir enn. Það þarf að leggja áherslu á þetta atriði. Hún hefir aflað almenningi betri viðskiftakjara, og gætir þess enn meira í afskektum stöðum heldur en annarsstaðar. Það er að sjálfsögðu ekki nema eðlilegt, að þeir, sem vilja leggja niður landsverslunina, bendi á skuldir hennar. Þótt þeir hafi tekið alldjúpt í árinni, þá hefir þeim þó ekki tekist að benda á meiri skuldir en um 400 þús. kr., sem í raun og veru er harla lítið, og alveg hverfandi, saman borið við umsetningu verslunarinnar og skuldir kaupmanna.

Auk þess eru þessar skuldir alls ekki allar fallnar, heldur aðeins röskur helmingur þeirra, en líkur til þess, að hitt alt greiðist. Þó að 300–400 þús. kr. fjellu eða töpuðust algerlega, þá væri það harla lítið í samanburði við allan þann mikla gróða, sem verslunin hefir unnið þjóð vorri. Mikið af þessu tjóni stafar af skemdum á vörum, sem orsakast af húsaskorti og öðrum slæmum aðstæðum.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) lagði mikla áherslu á það, að á þingmálafundum til og frá á landinu hefðu verið samþyktar tillögur til þingsins um að leggja landsverslunina niður. Sömuleiðis sagði hann, að einu meðmælin, sem hún hefði fengið, hefðu komið úr mínu kjördæmi. Jeg vil þá geta þess, að í flestum þingmálafundargerðum er alls ekki minst á landsverslunina, en þar sem það er gert, er það gert af kaupmönnum sjálfum, í fundargerðunum frá kaupstöðunum.

Það er og var vitanlegt strax 1916, að þeir voru á móti henni og vildu hana feiga.

Það er notað sem ástæða móti landsversluninni, að með henni sje ríkisfje stofnað í mikla hættu, en nú vill svo vel til, að það fje, sem hún starfar með, er að mestu leyti fje, sem hún hefir grætt, og eftir því, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram í gær, þá eru líkur til, að hún verði eingöngu að starfa fyrir sitt eigið fje. Ef litið er á þskj. 269 og 270, þá er augljóst, að hættan hefir verið lítil hingað til, og ekki ástæða til að ætla, að hún verði meiri hjer eftir. Síðastliðið ár var slæmt, og þaðan stafa skuldirnar. Sumstaðar hafa þær að vísu minkað, en aftur aukist á öðrum stöðum, einkum á Vestur- og Austurlandi, enda ætla jeg, að afkoman hafi þar verið verst og erfiðleikarnir mestir. Jeg álít hjer enga hættu á ferðinni og vænti þess, að skuldunautarnir geti greitt skuldir sínar á þessu yfirstandandi ári.

Jeg vil taka það fram, í sambandi við landsverslunina og sölu hennar á olíu og tóbaki, að jeg álít það mjög hættulegt að láta hana hætta við aðrar nauðsynjavörur, því þá mun ganga ver að innheimta hinar gömlu skuldir. Jeg álít því sjálfsagt, að hún versli með hinar sömu vörur eins og áður.

Jeg vil ekki tefja umr. með því að fara út í hvert það atriði í ræðu hv. þm. Snæf. (H. St.), sem jeg var ósamþykkur, og læt það nægja, sem jeg þegar hefi sagt.