24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2020)

90. mál, landsverslunin

Magnús Guðmundsson:

Jeg þarf að svara hæstv. forseta (M. K.) nokkrum orðum. Hann virtist töluvert reiður í síðustu ræðu sinni og sagði, að jeg hefði afneitað einhverju. Ekki gat hann um, hvað það hefði verið, en landsverslunin gat það ekki verið, því jeg hefi ætíð verið henni vinveittur, og þau fáu orð, sem jeg sagði, voru henni í vil. Annars get jeg vel látið mjer lynda að vera settur á bekk með Pjetri postula; það er engin vanvirða, og þakka má hæstv. forseti (M. K.) fyrir, ef hans orðstír verður jafnmikill eftir 1900 ár og Pjeturs orðstír er nú. En afleiðingin af þessari samlíkingu hlýtur að verða sú, að jeg hafi afneitað hv. þm. Ak. (M. K), sem hefir þá verið svo hógvær að líkja sjer við Krist, og er varla von, að sjálfur forseti sameinaðs þings láti sjer sæma minna.

En annars mætti kannske minna hæstv. forseta á það, að hann hafði ekki mikið á móti kaupmönnum meðan hann var kaupmaður sjálfur, þótt hann afneiti þeim nú, svo að það eru þá fleiri en jeg, sem drýgja afneitunarbreyskleikasyndir.

Hv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að stjórnin hefði ráðið vörukaupunum í heild sinni. Það er rjett, að þessi regla var alment gefin, og í mörgum tilfellum voru þessi kaup borin undir mig, svo sem hveitikaupin, olíu- og kolakaupin. En auðvitað var jeg ekki ætíð um spurður, enda var það ekki eðlilegt, því að þetta heyrði alment ekki undir mig.

Annars er jeg samdóma hæstv. atvrh. (Kl. J.) um það, að rjett sje, hvað sem samþykt verður, að kaupa inn aðrar vörur en þær, sem einkasala er á, ef brýn nauðsyn ber til, en sjálfsagt að gera það ekki að nauðsynjalausu.

Jeg undirbygði mína fyrri ræðu með tölum, sem ekki hafa verið hraktar, og sýndi fram á, að eftir 1. júlí í ár getur verslunin ekki haft úr að spila meiru en 1 milj. kr., því að varasjóður hennar er bundinn í útistandandi skuldum. En það er auðsætt, að til þess að reka olíu- og tóbaksverslunina þarf mikið fje, og auk þess mun ríkissjóði engin vanþörf á að fá eitthvað af innieign sinni goldið, þegar kemur fram á sumarið 1923.

Er af þessu bert, að nauðsynlegt er, að landsverslunin rifi nokkuð seglin. Enn er ótalið fjeð, sem þarf til vínkaupanna. Er þar ekki nema um tvent að velja, annaðhvort að taka lán til þess, eða að landsverslunin leggi fjeð til.

Það hefir verið sagt, að landsverslunin hafi notið hlunninda hjá bönkunum um yfirfærslu. Hafi þetta verið, er það án minnar vitundar, og jeg held, að hún hafi sætt sömu kjörum og aðrir. En þótt þetta væri, væri það ekki nema eðlilegt, því að hún hafði ætíð peninga til, en þurfti ekki að taka þá til láns.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að meira fje mundi í landsversluninni en jeg hefði sagt í gær. Þetta er rjett, ef varasjóður er tekinn með, en jeg gerði það ekki vegna þess, að hann er fastur í útistandandi skuldum og vörubirgðum, og yfirleitt ræddi jeg aðeins um það, hvað ógreitt væri af því fje, sem lagt hefir verið úr ríkissjóði til verslunarinnar.