24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (2021)

90. mál, landsverslunin

Bjarni Jónsson:

Það er aðallega hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem jeg þarf að eiga orðastað við út af dagskrá minni, en raunar ætti þess ekki að þurfa, því að við erum sammála um flest.

Hann sagði, að það væri ekki vel í samræmi við aðra meðferð á fjármunum ríkissjóðs að láta fje standa í fyrirtækjum, sem ráðið væri yfir af einstökum mönnum, og nokkuð á annan veg en þingið vildi. En það er auðsætt, að svo verður að vera að meira eða minna leyti, að einstakir menn hafi mikil umráð yfir því fje, sem varið er til þeirra fyrirtækja, er ríkið rekur.

Mjer þótti vænt um það, að þessi sami hv. þm. (J. Þ.) tók til samanburðar þessa lúsamulninga, 500 kr. styrk eða svo, til fátækra en efnilegra manna, sem altaf er verið að telja eftir og tala um, að þjóðin fari á höfuðið fyrir, því að sá ótti verður næsta hlægilegur, þegar menn sjá, að yfirráðin verða að vera nokkuð rúm hjá forstöðumönnum svona fyrirtækja, og þar því lagt út í miklu viðsjárverðari hluti. Annars skal jeg geta þess, sem jeg raunar hefi áður minst á, að jeg hefi altaf álitið, að þessi afskifti landsins af versluninni hefðu átt að vera með öðrum hætti.

Þegar þrot urðu hjá kaupmönnum á því að fá vörur, þá átti ekki að koma á fót landsverslun, heldur átti ríkisstjórnin að styrkja kaupmenn í því að fá skip til flutnings og útflutningsleyfi og annað, er með þurfti, en kaupmenn áttu að leggja til fjeð, starfsfólkið og húsin og verslunarvitið. Verð varanna hefði svo stjórnin mátt ákveða. Hefði þetta verið umsvifaminna, en þó öruggara. Erum við hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og jeg að þessu leyti mjög á sömu skoðun.

Aftur á móti erum við ósammála um það, að stjórninni sje bæði skylt og rjett að fara eftir áliti forstjóra svona fyrirtækja í öllum greinum. Það er rjett, að stjórn verður mjög að hlíta vilja og ráðleggingum fræðslu- og vegastjóra og annara þeirra manna, sem sjerþekkingu hafa á því starfi, er þeir hafa umsjón með. En hjer gegnir öðru máli. Hjer kemur sjerþekkingin ekki til greina, heldur er það stefnan, sem á að ráða. Segi stjórnin forstjóranum að draga inn skuldir, þá á hann auðvitað að hlýða því. Geri hann það ekki, á að setja hann frá. Það er stjórnin ein, sem á að hafa og hefir máttinn.

Hefi jeg nú heyrt hæstv. atvrh. (Kl. J.) lýsa því skýrt yfir, að hann vilji og ætli sjer að láta draga inn skuldirnar og hætta vörukaupum; er því ekki ástæða til annars en láta sjer þetta nægja, og er því algerlega óþarft, að þingið fari að skora á stjórnina að gera þetta. En jeg veit, að þetta kemur til af því, að hv. þm. (J. Þ.) treystir ekki stjórninni til að standa við þessa yfirlýsingu. En rökfærsla hans er ekki rjett. Hann sagði, að þingfylgi stjórnarinnar væri svo veikt, að hún þyldi ekki að missa þennan hv. þm. (M. K.), sem hjer á hlut að máli. Það er nú fyrst og fremst ósannað, að hv. þm. Ak. (M. K.) sje svo mikill kappsmaður, að hann vildi nota afstöðu sína þannig, en þótt svo væri, þá væri það samt miklu meiri hætta fyrir stjórnina að brigða loforð sín, því með því móti misti hún þingfylgi allra þingmanna. Eru og sumir ráðherrar ekki svo fastir við þessa stóla, að þeir kjósi heldur að vera mannorðsrýrir en að standa upp úr þeim. En haldi stjórnin ekki þau loforð, sem dagskrá þessi er bygð á, þá er jeg einráðinn í því að verða fyrsti maðurinn, sem kem með vantraust á hana á næsta þingi, svo sem jeg er og einráðinn í að bera fram vantraustsyfirlýsingu á hendur henni, ef hún gerir eigi meiri gangskör að því en fráfarin stjórn að framkvæma 7. gr. sáttmálans rjett og samkvæmt því, er jeg hefi haldið fram. Eru menn þeir, er stjórnina skipa, mjer ekkert kærari en aðrir, enda fer jeg aldrei í manngreinarálit, er um stefnur er að ræða.

Er með þessu röksemd hv. þm. (J. Þ.) fallin um koll. Stjórninni er aldrei skylt að fara eftir áskorunum þingsins, en hitt dettur henni varla í hug, að rjúfa þá yfirlýsingu, sem hún hefir gefið þinginu.