24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (2024)

90. mál, landsverslunin

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg þarf aðeins að gera stuttar athugasemdir viðvíkjandi einstaka atriðum, sem komið hafa fram í umræðunum.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) nefndi mig í sambandi við tvo aðra þm., sem lagt hefðu áherslu á, að kaupmenn vildu landsverslunina feiga. En jeg tók alls ekki svo djúpt í árinni. Jeg drap á það, að mjer þætti það furðulegt, að kaupmenn skyldu yfirleitt vera á móti versluninni, þar sem þeir hafa notið mikils góðs af henni. Enda mun það vera svo, að það sjeu heildsalar aðallega, en ekki smákaupmenn, sem leggjast aðallega á móti versluninni. Hv. þm. (J. Þ.) hefir misskilið mig þarna, og finn jeg því ástæðu til að leiðrjetta það.

Hv. þm. (J. Þ.) gerði ekki mikið úr yfirlýsingu minni viðvíkjandi þessum till. Hann efaðist um, að jeg væri fær um að halda hana, en jeg vona, að hann hafi ekki efast um, að jeg vildi gera það. Viðvíkjandi þessu vil jeg leyfa mjer að taka það upp aftur, sem jeg sagði í þessu sambandi.

Jeg sagðist verða að skilja till. meiri hlutans svo, að hann teldi heimilt, að landsverslunin flytti inn og seldi einhverjar vörur, ef full vissa væri fyrir því, að þær vörur ætti að einoka, því þó að orðið „eingöngu“ standi í till. meiri hlutans, þá er þar einnig skýrt tekið fram, að landsverslunin skuli hafa á hendi steinolíuverslunina, þó að ekki hafi verið tekin einkasala á þeirri vöru, af ótta fyrir einokun. Þarna kemur fram hinn sanni vilji þingsins, og jeg sje því ekki betur en að yfirlýsing mín sje í fullu samræmi við vilja meiri hlutans og alls þingsins.

Hv. þm. (J. Þ.) sagði, að það kæmi ekki til mála, að stjórnin gæti framfylgt þessari yfirlýsingu sinni; hún mundi leita til forstjórans og fara að till. hans í einu og öllu, eins og vant væri í þvílíkum tilfellum, en það væri vitanlegt, að hann mundi ekki letja til vörukaupa. Jeg er hræddur um, að hv. þm. (J. Þ.) byggi of mikið á sjálfs sín reynslu í þessu efni. Mjer er kunnugt um það, að þegar hann var landsverkfræðingur, átti hann miklu gengi að fagna hjá stjórninni, enda var það að vonum, því að hann kom jafnan með skýrar og vel rökstuddar áætlanir. Jeg held, að það hafi sjaldan eða aldrei komið fyrir, að stjórnin hafi gengið á móti till. hans. En þó að hann hafi sjálfur þessa reynslu, er ekki þar með sagt, að eins sje farið um aðra forstjóra. Það hefir ekki sjaldan komið fyrir, að stjórnin hefir ekki viljað hlíta till. forstjóranna. Jeg hefi ekki dæmi þess á hraðbergi, en jeg býst ekki við, að jeg þyrfti að leita lengi í skjölum stjórnarráðsins til þess að sanna mál mitt.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) taldi aðalástæðuna fyrir því, að stjórnin mundi fara eftir ráðum forstjóra landsverslunarinnar, vera pólitíska. Stjórnin hjengi á svo veikum þræði, að hún mætti ekki við því að missa eitt einasta stuðningsatkvæði. Jeg skal ekki segja um það, hversu mikið er komið undir því eina atkvæði fyrir stjórnina. Jeg skal fúslega viðurkenna, að ráðherrarnir hafi jafnan verið valtir í sessi. En jeg lít svo á, að ekki sje þá úr svo mjög háum söðli að detta. Fleira hefi jeg ekki að athuga við ræðu hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.).

Hv. þm. Snæf. (H. St.) talaði mikið um, að endurskoðendur landsverslunarinnar hefðu engan botn fundið í reikningum landsverslunarinnar 1916. Jeg fæ ekki vel skilið þetta. Jeg hefi talað við samverkamann minn þá, skrifstofustjórann á 2. skrifstofu stjórnarráðsins, og fullyrti hann við mig nú í símtali fyrir hálfri stundu, að alt hefði verið borgað upp frá árunum 1914–1916. Aðeins hefði tapast lítið eitt hjá einstöku hreppafjelögum hjer suður með sjó.

Um fyrstu vörurnar, sem komu til landsverslunarinnar og kallaðar voru Hermóðsvörur, eftir skipinu, sem flutti þær, er það að segja, að þær voru borgaðar upp þegar í stað. Ræðumaðurinn (H. St.) tók það sjálfur fram, að hann hefði þessar sagnir frá kaupmönnum, og er þá skiljanlegra, hvers vegna þær eru svo mjög afbakaðar. Það er ósköp eðlilegt, því að kaupmenn voru gramir þá, vegna þess, að þá voru hreppsfjelög og kaupfjelög látin hafa vörurnar. Kaupmenn urðu eðlilega á hakanum, og gramdist það mjög.

Hitt get jeg sagt, að ekki þarf lengi að leita í skjalabunkum 2. skrifstofu stjórnarráðsins til að finna fjölmörg brjef frá hreppsfjelögum, sem þakka landsstjórninni fyrir þessi innkaup sín.

Hv. þm. Ak. (M. K.) fór á víð og dreif í ræðu sinni. Var hann ekki vel ánægður með ummæli mín um greinargerð meiri hluta nefndarinnar, er jeg talaði um, að þær skoðanir, sem þar kæmu fram, væru eiginlega uppsláttur fyrir landsverslunina, í samanburði við þá skoðun, sem mest hefir borið á í sumum blaðagreinunum. Mjer finst hv. þm. (M. K.) sýna óþarfa viðkvæmni út úr greinargerð meiri hlutans; í henni er ekki um neinar árásir á landsverslunina að ræða; aðeins nokkuð litaða framsetningu.

Hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (Ó. P.) talaði um, að stjórnin væri ekki búin að átta sig á erindinu um verslunina með steinolíu. Það er ekki von, að hún sje búin að átta sig á því, sem hún hefir aldrei sjeð; jeg sagði það heldur aldrei, heldur hafði jeg þau orð, að stjórnin hefði enn enga afstöðu tekið í málinu, enda hefir tíminn verið svo naumur, síðan í gærkvöldi, að slíkt var ómögulegt. Jeg ímynda mjer, að fáir þm. muni hafa getað tekið fullkomna afstöðu til þessa máls aðeins eftir blaðagreinum, sem þeir hefðu lesið, ef þeir þá ekki eru sjerstaklega verslunarfróðir.