10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get verið með mörgum brtt. háttv. nefndar, en jeg get ekki felt mig við þær allar. Nefndin hefir t. d. tekið upp tekjur af skólagjaldi, af því að hún hefir gengið út frá því vísu, að það yrði samþykt hjer í deildinni. En jeg vona, að svo verði ekki. Skólagjald er mjög óviðkunnanlegt, sjerstaklega við gagnfræðaskóla eða deildir. Eins er það einungis miðað við innanbæjarmenn, og er það ranglátt. Margir verða að flytja t. d. hingað til Reykjavíkur til þess að stunda nám, og standa þeir vitanlega engu betur að vígi en hinir, nema síður sje. Jeg vona því, að þetta skólagjald verði felt. Það er mjög lítil tekjugrein og gerir þannig hvorki af nje frá, en hinsvegar getur það komið mjög illa niður.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að Flóabrautinni. Jeg get ekki fallist á ástæður nefndarinnar, nefnilega fjárhagsástand Árnessýslu. Það er ætlast til þess, að landið veiti sýslunni fje, 10 þús. kr., og hún leggi 5 þús. kr. á móti, og er sýslan þá með öllu gjaldþrota, ef hún getur ekki lagt fram það fje. En jeg held, að samkvæmt vegalögunum verði ríkissjóður að halda við brautinni þar til endurbyggingu er lokið og afhending fer fram, og gæti það orðið sparnaður að flýta henni sem mest. Jeg skýt þessu fram til athugunar.

Jeg á hjer brtt. um að lækka fjárveitingu til embættiseftirlitsferða niður í 3 þús. kr. Jeg held, að ferðir þessar komi að mjög litlu gagni, en ef þær reynast nauðsynlegar, getur stjórnin lagt fram fje. Jeg álít ekki rjett að ýta undir slík ferðalög að óþörfu.

Þá vil jeg lýsa því yfir, að jeg tek aftur brtt. um heilbrigðiseftirlit og sjúkrasamlög, því að við nánari athugun hefi jeg sjeð, að þeirra muni ekki þörf. Sjúkrasamlögin hafa t. d. komist hingað til af með það fje, sem þeim er nú veitt í fjárlögunum.

Þá vil jeg beina því til stjórnarinnar, að styrknum til bátaferða verði sanngjarnlega úthlutað. Jeg vil ekki fara hjer út í hreppapólitík, en eftir fólksfjölda ættu Rangárvalla- og Skaftafellssýslur að fá 1/8 hluta af því fje, sem til strandferða er ætlað.