24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (2034)

90. mál, landsverslunin

Jón Baldvinsson (frh.):

Þá vil jeg minnast á þær till., sem hjer liggja fyrir. Tvær þeirra eru á þskj. 269 og 270, og þriðja er dagskrártill. hv. þm. Dala. (B. J.). Mjer líkar engin þeirra, tel allar fara of skamt, og býst naumast við að geta greitt nokkurri þeirra atkv. mitt, af og frá með till. meiri hl. Jeg vil ekki, að lagðar sjeu niður allar aðrar vörutegundir en olía og tóbak, eins og till. fer fram á. Dagskrártill. kemur sennilega fyrst til atkvgr., og hana gæti jeg samþ. fyrir það eitt, að hún fellir till. meiri hlutans. Þótt jeg sje ekki stuðningsmaður hæstv. stjórnar, þá vona jeg samt, að hún gangi eigi svo langt, að hún drepi landsverslunina. Og mjer fanst hæstv. atvrh. (Kl. J.) gefa mjer tilefni til að vona það.

Það er ekki hægt að taka það alt fram í ræðu, sem koma kann fyrir í viðskiftalífinu, og það er altaf álitamál, hvenær nauðsyn er á að kaupa vörur eða ekki. En setjum nú svo, að kaupmenn eða heildsalar setji okurverð á einhverja vöru; þá er það landsverslunin, sem á að bæta úr því og fyrirbyggja, að þeim geti haldist uppi slík óhæfa. Landsverslunin er sú trygging fyrir almenning og þjóðina í heild sinni, sem á engan hátt má skerða. Í stað þess að leggja verslunina niður, eins og sumir vilja, eða láta hana vera við þetta sama, eins og aðrir vilja, þá hefði jeg helst kosið, að hún hefði verið aukin og efld að miklum mun. Það hefði verið blessunarríkast fyrir þjóð vora.