10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Mig langar til að gera athugasemd við tvö atriði í till. nefndarinnar, sem heyra saman. Nefndin hefir farið fram á að lækka styrk til augnlæknisins niður í 1500 kr. og vill láta það ótiltekið, hvaða manni beri þessi styrkur. Eins vill hún láta ótiltekið, hver fái ferðastyrkinn. Það lítur út fyrir, að nefndin skoði þennan styrk eins og einhver fríðindi, en jeg lít öðrum augum á það mál. Jeg vil að augnlækninum beri skylda til að ferðast um landið, og er það miklu frekar kvöð en gróði, því að þessar ferðir munu sjaldan borga sig. Nú eru hjer tveir augnlæknar, og er því enn verra en áður fyrir augnlækni að fara úr bænum, því að við það á hann á hættu að missa aðsókn,er hann kemur aftur. Ferðastyrkurinn er síst of hár og nokkur hluti hins styrksins ætti að vera endurgjald fyrir það að fara slíkar ferðir; hitt er fyrir kenslu í háskólanum. Jeg verð því að greiða atkv. með þessum liðum eins og þeir standa nú í fjárlagafrv.

Þá hefi jeg brtt. um styrk til sjúkrahúsa og skýla. Það var um langt skeið ætlað 30 aura fyrir legudag, og áttu sjúkrahúsin mjög erfitt með að komast af með það. Þegar dýrtíðin magnaðist var þetta fært upp í 60 aura, en það var í raun og veru lægra en hitt hafði verið, vegna verðfalls peninganna. Nú hefir um nokkurra ára skeið verið veittur 8 þús. kr. styrkur og 60 aurar á mann, en það hefir altaf reynst langt of lítið, bæði vegna dýrtíðar og eins vegna þess, að sjúkrahúsum hefir fjölgað, t. d. hafa bæst við hjer í Reykjavík sóttvarnarhúsið og franski spítalinn að einhverju leyti, og sjúkrahúsið á Akureyri hefir verið stækkað. Eins hefir legudögum sjúkrahúsanna fjölgað og reynslan hefir orðið sú, að þau hafa ekki fengið nema 30 aura fyrir legudag. Nefndinni var það ljóst í fyrra, að við svo búið mátti ekki standa, og hækkaði hún þá styrkinn upp í 15 þús. kr. og 90 aura fyrir legudag. Nú er sýnilegt. að þessar 15 þús. kr. hrökkva ekki til þess að greiða 90 aura á legudag. Jeg sje því ekki betur en að þessi fjárveiting verði að vera 20 þús. kr., þó aðeins um 70 aura á legudag sje að ræða. Jeg hefi sett 20 þús. kr., en jeg ætlast til að það sje áætlunarupphæð. Það þýðir ekki að svíkja sjálfan sig og áætla lágt það, sem vitanlegt er, að verður hærra. Það er enginn sparnaður í því. Jeg vona því, að háttv. deild fallist á þessa till. mína.

Þá vildi jeg skjóta því til háttv. nefndar, hvort ekki sje rjett að breyta orðalagi athugasemdarinnar. Eins og hún nú er orðuð sjest ekki betur en að átt sje aðeins við læknishjerað það, sem sjúkrahúsið er í, þó að heil sýsla sje ef til vill um sjúkrahús. Jeg veit að þessu hefir ekki verið framfylgt svo, að minsta kosti ekki stundum, en það gerir ekki skakt orðalag rjett, þó að betra sje en að bæði sje vitlaust framkvæmt og fyrirmælt.

Jeg ætla ekki að tala um brtt. nefndarinnar. Jeg mun láta í ljósi skoðun mína á þeim með atkv. mínu. Nú eru sparnaðartímar og er því eðlilegt að háttv. nefnd dragi dám af því, en hitt getur orkað tvímælis, hvort ekki sje sumstaðar gengið fulllangt í sparnaðaráttina. Svo held jeg að gert sje t. d. í till. nefndarinnar um að fella niður styrk til kennara í málfræði við háskólann.