03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (2053)

72. mál, prentunarkostnaður ríkissjóðs

Jakob Möller:

Það er stutt athugasemd út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Hann sagði, að umsetning prentsmiðja væri að meðaltali ekki meiri en 150 þús. krónur, og að ríkisprentsmiðja mundi því hafa nægilegt að gera, úr því að prentunarkostnaður ríkisins næmi þessari upphæð. En jeg vil benda hv. þdm. á, að t. d. skjalaprentun þingsins, sem er fullur helmingur þingtíðindaprentunarinnar, er þannig vaxin, að aðeins stærsta prentsmiðjan hjer getur tekist hana á hendur. Ríkisprentsmiðjan þarf því að vera að minsta kosti jafnstór og stærsta prentsmiðjan hjer. Það er því augljóst, að slík prentsmiðja hefir ekki nóg að vinna við opinbera prentun, og verður því annað tveggja að keppa við aðrar prentsmiðjur um venjuleg prentstörf, eða vera atvinnulaus nokkurn tíma ársins, ekki síst þar sem prentun fyrir ríkið er mestmegnis skorpuvinna. Er hvorugur kosturinn góður.

Orðum hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), um að fyrverandi stjórnir hafi ekki haft tækifæri til að komast að góðum samningum, er því að svara, að þær hafa að sjálfsögðu haft jafngott tækifæri til þess eins og núverandi stjórn mundi hafa, þegar hún ætti að fara að reyna að komast að viðunanlegum kjörum hjá sömu prentsmiðjum, sem fyrverandi stjórnir hafa átt við að semja. Hafi fyrri stjórnir ekki haft tækifæri til þessa, þá er auðsætt, að núverandi stjórn mun ekki heldur hafa það. Hv. þm. (Sv. Ó.) gerir þannig í raun og veru ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að ríkið setji prentsmiðju á stofn, ef till. verður samþykt, því að hans áliti verður ekki nema um tvent að velja: að sæta óviðunandi kjörum, eða þá að setja upp ríkisprentsmiðju.

Þeir, sem því greiða atkv. með þessari till., verða að vera þess albúnir að greiða atkv. með stofnun ríkisprentsmiðju og öllum þeim kostnaði, sem slík stofnun hefir í för með sjer, með nýjum háttlaunuðum embættum o. s. frv.