10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1923

Björn Kristjánsson:

Hin háttvirta fjárveitinganefnd hefir nú eins og á þinginu 1921 reynt að krukka í Flensborgarskólann, þrátt fyrir það, að stjórnin hafði fært styrkinn til þessa skóla niður um 7000 krónur frá því, sem hann var 1921, sem er meiri niðurfærsla að tiltölu en hjá öðrum skólum, og að Nd. hefir fullkomlega unað við þá niðurfærslu.

Eins og menn ef til vill muna, kom fjárveitinganefndin hjer með alveg samskonar tillögu 1921 og þessa, en hún fjell hjer í deildinni. Jeg vona að svo fari enn.

Háttvirt nefnd mun álíta sjer skylt að setja sem skilyrði fyrir styrkveitingunni, að fje komi annarsstaðar að, í samræmi við það, að skólagjald á nú að taka af öðrum samskonar skólum, Akureyrarskólanum og neðri bekkjum mentaskólans og óbeinlínis af kvennaskólanum. En hjer stendur alt öðruvísi á.

Akureyrarskólinn og mentaskólinn eru eingöngu kostaðir af ríkissjóði, bæði að húsum og öðru, og jeg veit ekki til, að kvennaskólinn eigi neinar eignir, er spari ríkissjóði fje. En Flensborgarskólinn er gjöf einstaks manns, sem lagt hefir fram hús og lóð og stóreign, Hvaleyrina, þótt hún gefi um tíma lágan arð, vegna óviturlegra gamalla samninga. Þessi eign orsakar að þessi stofnun er svo mikið ódýrari í rekstri en t. d. Akureyrarskólinn. Þannig eru í Flensborg 27 heimavistir, sem stofnunin sjálf, en ekki landssjóður, hefir lagt til, auk íbúðar fyrir skólastjórann. Enginn lærlingur hefir þar verið styrktur af almannafje til náms, og þó hefir skólinn jafnan verið fullur.

Beri maður kostnað ríkissjóðs við skólahald Akureyrarskólans saman við Flensborgarskólann, sem nú er áætlað í fjárlagafrv., þá er hann:

Á Akureyri 48380 kr.

í Flensborg 15000 kr.

Nemendatalan var á Akureyri 1918–19 93 (1917–18 91), en nemendatala í Flensborg 1920–21 86.

Borgar ríkissjóður þá fyrir hvern nemanda á Akureyri 520 kr., en í Flensborg 174 kr., það er: þrefalt dýrara.

Og hvað veldur? Það veldur, að skólinn á þessa eign, sem veitir skólanum svo mikinn óbeinan styrk, að mjög sparlega hefir verið á haldið og að kennararnir hafa verið beint sveltir, eins og sjá má af launum þeirra.

Það má því með fullum sanni segja, að skólinn sjálfur og stjórn hans beri 2/3 af kostnaðinum við rekstur skólans, er miðað er við Akureyrarskólann, og samt á að fara að gera honum eða Hafnfirðingum að skyldu að leggja fram 1000 krónur, rjett eins og landssjóður hafi greitt rekstur skólans allan að undanförnu, og ekkert hafi komið annarsstaðar frá. Og svo á að klípa þessar 1000 kr. af þessum 15000 kr. styrk, sem vitanlega er altof lágur og heldur skólanum áfram í svelti. Og ekki er nema eitt ár síðan sama nefnd með sömu mönnum, að undanteknum einum, hafði þá reynslu, að háttv. deild vildi eigi fallast á tillöguna. Þess vegna finst mjer nefndin eða einstakir menn í henni sýna nokkuð mikla kappgirni í því að gera skólanum örðugt fyrir, og þó er hann skóli alls landsins, sem sjá má af töflu yfir nemendur í síðustu 16 ár, sem jeg hefi fyrir framan mig og skal leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Taflan er á þessa leið:

„Á 16 árum, frá 1906–1922, hafa þessi hjeruð og bæir sent nemendur í Flensborgarskólann:

Rangárvallasýsla 40, Árnessýsla 98, Gullbringu- og Kjósarsýsla 115, Reykjavík 27, Borgarfjarðarsýsla 33, Mýrasýsla 36, Snæfellsnessýsla 43, Dalasýsla 18, Barðastrandarsýsla 36, Ísafjarðarsýsla 31, Strandasýsla 11, Húnavatnssýsla 82, Skagafjarðarsýsla 10, Eyjafjarðarsýsla 4, Þingeyjarsýsla 6, Norður-Múlasýsla 4, Suður-Múlasýsla 41, Skaftafellssýsla 33, Hafnarfjörður 396“.

Alls hafa þannig verið á skólanum 1064 nemendur á þessum árum og hafa af þeim á árunum 1913–1921 20 nemendur gengið inn í 4. bekk mentaskólans með góðum vitnisburði.

Það, sem skólinn þyrfti að fá minst og skilyrðislaust, eru 18000 krónur á ári, svo að hann geti haldið við húsum sínum og greitt eldri skuldir, sem á honum hvíla.

Þetta mun nú nóg sagt um sjálfan skólann, en svo vildi jeg mega bæta einni athugasemd við:

Heldur nú háttvirt nefnd, að margir efnamenn mundu verða til þess að gefa stórfje til stofnunar alþýðuskóla í landinu, eins og merkispresturinn Þórarinn Böðvarsson gerði, ef þeir mættu eiga það víst, að Alþingi Íslendinga straffaði slíkar stofnanir með því að vilja ekki leggja fram góðfúslega 1/3 af kostnaðinum við rekstur þeirra, miðað við kostnaðinn við ríkisskólana, sem landssjóður kostar að öllu leyti?

Mjer finst sparsemdarmönnum á ríkisfje vera mislagðar hendur, ef þessi sparsemi á að verða ofan á í háttv. deild. Hver fjármálamaður mundi breiða út faðminn á móti því, ef ríkissjóður gæti komist svo ljett út af því að fræða almenning.

Við þingmenn Kjósar- og Gullbringusýslu skrifuðum fjárveitinganefnd Nd. og báðum hana að hækka styrkinn, sem vitanlega var of lágur, en það hefir nefndin eigi viljað fallast á. En eigi datt henni í hug að lækka styrkinn eða setja nein skilyrði; það hefir Nd. heldur aldrei gert.

Að fengnum þessum upplýsingum vænti jeg, að háttvirt nefnd falli frá þessari tillögu sinni og að háttv. deild verði sama sinnis og í fyrra. En þótt hún verði samþykt, er jeg ekki í efa um, að því mundi verða breytt í neðri deild. Óskandi væri, að fjárveitinganefndirnar færu að gefa því meiri gaum en áður, hversu mikið hver nemandi kostar ríkissjóð á hverjum skóla. Ætti það að geta lagt einhvern fastan mælikvarða á, hversu mikinn styrk hver alþýðuskóli á að fá úr ríkissjóði til unglingafræðslu, og það er ekki lítilsvert að vita um þetta og fá einhvern fastari grundvöll fyrir fjárveitingunni en verið hefir, þegar menn nú ætla að leggja aðaláhersluna á unglingafræðsluna, og það er sýnt, að ríkisskólarnir verða of dýrir, ef unglingafræðsla á að verða mjög útbreidd, sem jeg álít að hún eigi að verða.