10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg ætla með nokkrum orðum að minnast á breytingartillögur frá einstökum þingmönnum í háttv. deild. Fyrst er breytingartillaga við 11. gr. B. 4, frá háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.). Vill hann færa niður fje það, er ætlað er til embættiseftirlitsferða, úr 6000 kr. niður í 3000 kr., og taldi hann ferðir þessar óþarfar. Bæði jeg persónulega og nefndin erum á gagnstæðri skoðun. Nauðsynlegt mun vera, eigi síður hjer en annarsstaðar, að hafa eftirlit með hvernig embættismenn standa í stöðu sinni, og þessi upphæð er eigi greidd fyr en eftir á, samkvæmt reikningi, svo eigi er víst að hún komi öll til útborgunar.

Þá eru breytingartillögur á þskj. 220 frá háttv. þm. Vestm. (K. E.). Hann leggur til að hækkaður verði að mun styrkur til landhelgisgæslu. Það kom til máls hjer í byrjun þings að láta Dani auka landhelgisgæsluna, en er mjög mikið vafamál, hvort þeim er það skylt samkvæmt lögunum. Enn er ekkert víst um það, hvort strandgæslan verður aukin af Dana hálfu eins og farið hefir verið fram á, og meðan það ekki er vitað, er ekki tímabært að áætla neina upphæð út í loftið til aukinnar strandgæslu. Nefndin gerir ráð fyrir, að stjórnin framkvæmi skýlausan vilja þingsins og strandgæslan verði aukin sem kostur er á.

Næst er á þskj. 226 brtt. frá háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) og 2. þm. Rang. (G. Guðf.) um sjúkraskýli. Nefndin hefir skoðað þessa upphæð sem áætlunarupphæð, en nú hefir það komið í ljós hjá háttv. þm. S.-M. og forseta, að þetta er veitingarupphæð. Jeg hefði gjarna viljað fara hjer meðalveg, og nefndin hefir í þessu máli alveg óbundnar hendur.

Þá er breytingartill. við 14. gr. A. b. 4, um að 400 króna styrkur til þess að gefa út ársskýrslu þjóðkirkjunnar falli niður. Mjer er raunar ekki kunnugt um, hversu mikilvæg þessi ársskýrsla er, en þar sem hjer er um mjög litla upphæð að ræða, þá getur nefndin ekki verið að amast við henni.

Það er eins með brtt. við 14. gr. B VII; nefndin leggur á móti, að sú till. nái fram að ganga. Það liggur í augum uppi, að innanbæjarmenn eiga miklu hægra með að ganga hjer á skóla en utanbæjarmenn. Auðvitað geta verið undantekningar; fátækir innanbæjarnemendur gætu haft baga af því. En ef til vill væri hægt að koma því þannig fyrir, að rektor veitti undanþágu í slíkum tilfellum, og gæti verið, að nefndin yrði með því við 3. umræðu, ef háttv. flutningsmaður gæti komið með góða uppástungu í þá átt.

Það er þá ekki fleira, sem jeg þarf um brtt. að segja, og vil jeg því svara einstökum þm. nokkrum orðum. Skal jeg þá fyrst snúa mjer að hæstv. stjórn, og ætla jeg að vera stuttorður.

Það gladdi mig, hve vel hæstv. forsætisráðherra (S. E.) tók fyrirspurn nefndarinnar viðvíkjandi geðveikrahælinu á Kleppi. Kvað hann það mundu hið fyrsta, er til framkvæmda kæmi af opinberum byggingum, og veit jeg að þau loforð verða haldin.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) amaðist mjög við brtt. nefndarinnar um að fella niður í bili styrk til Flóabrautarinanar. Kvað hann það ógerlegt að stöðva þá vegagerð, enda mundi sýslan ekki svo illa stödd, að hún gæti ekki lagt fram sinn hluta. En hæstv. atvrh. (Kl. J.) ætti að vita það, að reynslan hefir sýnt, að sýslan hefir ekki getað staðið í skilum, og það er sýslubúum sjálfum verst að sökkva þeim dýpra og dýpra niður í skuldafenið.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) mælti og á móti brtt. nefndarinnar um að lækka fjárveitingu til ljóss og eldiviðar við Hólaskóla. Nefndin kannast fúslega við það, að miklu er erfiðara hvað snertir aðdrætti alla á Hólum en t. d. á Hvanneyri, og þess vegna hefir hún farið meðalveg í þessu máli.

Hæstv. fjrh. (Magn. J.) efaðist um, að tekju- og eignarskatturinn yrði eins hár og nefndin hefir áætlað. Kvað hann þær frjettir, sem komið hefðu utan af landi, alt annað en glæsilegar hvað þetta mál snertir. En ef úr Reykjavík einni nást ca. 700 þús., eins og full ástæða er til að ætla, þá virðist ekki djarft áætlað, að utan af landinu öllu komi ca. 200 þús., enda lauk hæstv. fjrh. ræðu sinni með því að lýsa yfir, að hann gæti felt sig við brtt.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) hjelt fram, að hann væri á gagnstæðri skoðun við nefndina hvað snertir ferðir augnlæknis. Hjelt hann því fram, að ferðastyrkur hans lægi í þeim 2400 kr., sem honum eru veittar. En ef svo bæri að líta á, ætti það að vera tekið fram í athugasemdunum, en það er ekki gert; heldur er 500 kr. styrkurinn ætlaður til þessara ferða. Þess vegna held jeg fast við það, að liðurinn sje færður niður og í samræmi við styrk til annara sjerfræðinga.

Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) lagðist mjög á móti brtt. nefndarinnar um að lækka styrkinn til Flensborgarskólans. Telur hann einkennilegt, að á hverju þingi skuli háttv. fjvn. vera að reyna að krukka í hann. Jeg get nú ekki samþykt að nefndin hafi gert sjer sjerstakt far um að krukka í umræddan skóla í þetta sinn. Háttv. þm. veit vel, að styrkur til fleiri skóla hefir verið færður niður nú. Háttv. þm. hjelt því fram, að samskonar till. hefði komið fram á síðasta þingi og verið feld hjer í deildinni, og því ilt fyrir deildina að samþykkja þessa brtt. núna. En hjer blandar hv. þm. saman málum. Tillagan, sem borin var fram í fyrra, var annars eðlis en þessi, og getur því deildin vel látið sjer sæma að fallast á þessa brtt. — Nefndin ætlaðist heldur ekki til, að skólinn misti neins í við þetta, en næði fjenu aðeins annarsstaðar svo sem er um marga fleiri skóla.

Háttv. þm. (B. K.) hjelt því fram, að hjer stæði öðruvísi á en við aðra skóla, þar sem Flensborgarskólinn væri ekki nema að litlu leyti kostaður af landssjóði. Þetta er ekki rjett, skólinn er að miklu leyti kostaður af landssjóði. Það er aðeins not af húseign skólans og jörðinni Hvaleyri, sem skólinn leggur sjálfur fram. En jeg játa, að skólinn er ódýrari en ýmsir aðrir skólar ríkisins. Háttv. þm. las upp tölu nemenda skólans úr ýmsum sýslum, en það má og gera um aðra skóla, og sannar því lítið gegn brtt. Yfirleitt hefir nefndin hreinar hendur af því að hafa níðst á skólanum í nokkru, eins og háttv. þm. virtist gefa í skyn.

Jeg hefi nú ekki fleiru að svara í bili og læt hjer því staðar numið að sinni.