11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í D-deild Alþingistíðinda. (2082)

85. mál, endurskoðun fátækralaga

Fyrirspyrjandi (Hákon Kristófersson):

Þessi fyrirspurn er þess eðlis, að jeg þarf ekki að hafa langa framsögu. Jeg óska aðeins upplýsingu um, hvernig hæstv. landsstjórn hefir fullnægt tveimur þál., sem samþyktar hafa verið á Alþingi, 1917 og 1921, og fjölluðu báðar um endurskoðun fátækralaganna. Það mætti nú ef till segja svo, að ekki væri sanngjarnt að ætlast til þess, að hin nýkosna stjórn gæti svarað því, hvað fráfarandi stjórn hefði gert í þessu máli, en jeg held, að fljótlegt sje fyrir hæstv. stjórn að afla sjer þeirra gagna, sem með þarf til að svara.

Þingsályktunin frá 1917 er í 4 liðum. Það, sem jeg einkum vildi spyrja um af því, og það, sem jeg hefi mestan áhuga á að fá endurskoðað, er sveitfestisákvæðið, og svo ákvæðin í 66. gr. fátækralaganna.

Það skal jeg þó taka fram, að aðalatriðið fyrir mjer er sveitfestisatriðið. Þó að 10 ára dvölin hafi ef till vill átt einhvern rjett á sjer á þeim tíma, sem fólk var miklu rólegra á einum og sama stað en nú er, þá er það nú orðið algerlega óhafandi á þeim miklu byltinga- og breytingatímum, sem yfir standa.

Jeg og fleiri þm. höfðum í huga að flytja frv. um breytingu á lögum þessum á þinginu í fyrra. En úr því varð þó ekki, því jeg áleit, að rjett væri, að stjórnin ætti frumkvæði að um hin stærri málin. En nú hefir allur þessi tími síðan liðið án þess að nokkuð væri að gert. Veit jeg ekki, hvort þetta stafar heldur af því, að stjórnin álíti, að hún eigi ekki að taka neitt tillit til þál., eða að hún álítur málið ekki þess vert.

En vert er að minnast þess, að þegar 1905, sama árið og Alþingi samþykti fátækralögin, er nú gilda, var gert ráð fyrir bráðri endurskoðun á þeim. Að svo hafi verið, má í því sambandi minna á orð margra merkra þingmanna, þar á meðal bæði Jóns Magnússonar fyrv. forsætisráðherra og Ágústs Flygenrings. Var það sjerstaklega sveitfestisatriðið, sem mönnum fanst vart við unandi til lengdar. Hefir æ verið óánægja yfir þessum 10 ára sveitfestistíma, sem ekki er heldur að undra, svo framarlega sem mannúðartilfinningin fer vaxandi hjá þjóðinni. Hefir ekki verið hreyft við máli þessu þar til 1915, að jeg bar fram frv. Gekk það gegnum Ed., en fjell í Nd., illu heilli. Gekk breytingin á frv. aðallega út á það, að færa sveitfestistímann niður í 5 ár.

Hefir æ verið ágreiningur um það, hve tíminn ætti að vera langur, og ýmsar till. komið fram um það, en flestum hefir komið saman um, að 10 ára tíminn væri óhæfur, því að afleiðingin verður oft og einatt sú, að fæðingarhreppurinn fær allan þungann. Veit jeg dæmi til þess, að menn hafi lent á fæðingarhreppnum, þótt þeir hafi aðeins fæðst þar, en verið svo búnir að dvelja 30–40 ár annarsstaðar.

Með því að stytta tímann er fremur girt fyrir það, að fæðingarhreppurinn verði fyrir skakkafallinu.

En eins og jeg vjek að áðan, hafa skiftst skoðanirnar um, hvernig þessu yrði rjettlátlegast fyrir komið. Hafa sumir hallast að því að færa tímann niður í 2 ár. Aðrir hafa viljað hafa sveitfestina þar, sem maðurinn fyrst þiggur, og enn hafa sumir viljað hafa hann þar, sem maðurinn hefir dvalið lengst samtals. Hallaðist jeg 1915 helst að þessari síðustu skoðun, og er henni fylgjandi enn, þótt jeg kynni að sætta mig við annað.

Mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, að tilfæra hjer orð mikils metins konungkjörins þm. frá 1905. Hann er þar að tilfæra orð annars þm., sem var á móti því, að sveitfestistíminn væri stuttur. Ummælin eru á þessa leið: „Fyrir mitt leyti er jeg samþykkur því, að sveitfestistíminn sje færður niður úr 10 árum, því að hafa hann 10 ár er sama sem að kviksetja menn í fæðingarhreppnum“. Þetta eru eftirtektarverð orð af manni, sem var á móti því, að sveitfestistíminn væri stuttur.

Jeg legg aðaláhersluna á það, að stjórnin rannsaki ítarlega, hvort ekki sje hagkvæmt að færa sveitfestistímann niður, og einnig hvort ekki sje heppilegt að lengja frestinn samkv. 66. gr., því að hann reynist oft alt of stuttur.

Menn hafa komið með þau mótmæli, að ef tíminn yrði styttur, þá mundu hreppsnefndir fremur stjaka við mönnum. En jeg hefi svo langa reynslu í þessum efnum, að jeg veit, að svo mundi ekki verða, og jafnvel síður en nú er. Það er líka margföld reynsla fyrir því, að eftir að menn hafa dvalið 9 ár í sama hreppnum, þá hefir verið reynt að bola þeim þaðan, ef efni þeirra hafa verið lítil. Sjá allir heiðarlega sinnaðir menn, að þetta er óhafandi.

Hefi jeg svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vænti fastlega, að hæstv. stjórn geri meiri gangskör að málinu en fyrverandi stjórnir hafa gert.