11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (2085)

85. mál, endurskoðun fátækralaga

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get ekki stilt mig um að standa upp í þessu máli, því að það hefir altaf verið eitt af mínum ákveðnustu áhugamálum að fá fátækralögunum breytt í mannúðlegra og hagsýnna horf.

Jeg vil þakka hæstv. atvrh. (Kl. J.), hvernig hann tók í þetta mál.

Jeg er sammála hv. þm. Barð. (H. K.), að heppilegast sje, að hver maður eigi sveitfesti í dvalarsveit sinni. Það er alkunna, að menn hlynna mest að þeim, sem búa eða heima eiga í hreppnum. Jeg þekki dæmi þess úr mínu kjördæmi, að hreppsnefndirnar byrja með því að lána þurfalingum menn um sláttinn, eða hafa á annan hátt hlaupið undir bagga með þeim. Þetta er rjetta leiðin, því það hefir áhrif á sjálfsbjargarhvöt þeirra. Það hefir verið sagt, að þannig löguð sveitfesti kæmi hart niður á kaupstöðunum, en við því er hægt að reisa skorður, með því að láta þá hafa hönd í bagga með innflutningnum, og því sje jeg ekkert á móti.

Að því er snertir fátækraflutninginn, þá skal jeg geta þess, að hvernig sem hann er framkvæmdur nú, þá hefir hann áður fyr verið mjög svo svívirðilegur. Það er einhver sú ljótasta sjón, sem jeg hefi sjeð, að horfa upp á stór heimili tætt sundur og rifin upp með rótum alveg að ástæðulausu oft og einatt. Jeg er viss um, að ef rannsakað væri atferli það, sem sumar hreppsnefndir hafa áður fyr haft í frammi við þurfalinga, enda mundi jafnvel mega finna þess dæmi nú, þá mundu menn fljótt ganga úr skugga um það, að sumt atferli væri beinlínis hægt að heimfæra undir hegningarlögin. Það úir og grúir af óþarfa fátækraflutningi, nauðungargiftingum og fleiri slíkum hermdarverkum, sem ófyrirleitnar og illviljaðar hreppsnefndir hafa einatt unnið, til þess að losna við þurfalinga sína.

Jeg vænti þess, að stjórnin taki þál. frá 1917 til alvarlegrar íhugunar. Fyrsti liður hennar er t. d. sjálfsagður hlutur, að menn missi einskis í af borgaralegum rjettindum vegna ómegðar, sjúkdóma eða slysa. Skil jeg ekkert í, hversu lengi þetta hefir verið látið í lögum standa. Það virðist vera kominn mikill áhugi fyrir dýraverndun á síðari árum, og er það síst að lasta, en það er eins og menn láti sjer ekki eins umhugað um mannaverndun.