25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (2091)

87. mál, skólahússbygging á Eiðum

Fyrirspyrjandi (Björn Hallsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa fyrirspurn til hæstv. stjórnar og vil þess vegna fara nokkrum orðum um efni hennar.

Eins og kunnugt er, er núverandi Eiðaskóli stofnaður með lögum nr. 36, 26. okt. 1917, sem hljóða um stofnun skólans og afhendingu Eiðaeignar til landssjóðs. Í 1. gr. þessara laga er tekið fram, að á Eiðum skuli rekinn vel útbúinn alþýðuskóli, en þó er í 7. gr. gefin heimild til að draga úr kenslunni eða jafnvel fella hana alveg niður meðan stæði á heimsstyrjöldinni. En það kom aldrei til, að þess þyrfti. Þessi skóli var stofnaður upp úr búnaðarskóla, sem var búinn að starfa lengi á Eiðum, og ætla jeg ekki að rekja sögu hans hjer; þess er engin þörf.

Það kom brátt í ljós, þegar búið var að stofna þennan nýja skóla, að húsrúm reyndist of lítið, og því þegar þörf aukinna bygginga. Það skólahús, sem var á Eiðum þegar þessi skóli var stofnaður, og enn stendur, var sniðið eftir þörf skólans sem búnaðarskóla, en hann þurfti ekki stærra húsrúm en nú er á Eiðum, til þess að geta fullnægt þeim kröfum, sem til hans voru gerðar. Var svo gerð teikning og áætlun um nýtt skólahús í viðbót við hið gamla, og ætla jeg, að gert hafi verið ráð fyrir, að það kostaði 80 þús. kr.

Á þinginu 1919 voru samþykt lög um húsagerð ríkisins og heimiluð l½ milj. kr. lántaka til að koma þessum byggingum í framkvæmd. Meðal þessara bygginga var Eiðaskólinn. Lán þetta er nú fyrir nokkru tekið og eytt til annars, nema byggingar Hvanneyrarskólans. Eiðaskólinn er því óbygður enn þá. Er því það atriðið í lögunum um stofnun skólans og útbúnað óuppfylt, en aftur á móti tókst landsstjórninni mjög vel að velja starfsmenn til skólans, og hafa kennarar hans yfirleitt unnið sjer traust almennings, enda er skipun þeirra eitt af því fáa, sem jeg minnist ekki að fráfarin stjórn hafi sætt árásum fyrir, og var þó jafnan flest notað til þess. Sýnir það, að ekki hefir þótt árennilegt að setja út á þá ráðstöfun.

Síðan skólinn tók til starfa, fyrir rúmum 3 árum, hefir svo mikil aðsókn verið að honum, að ekki hefir verið hægt að taka nema tæpan helming þeirra, sem sótt hafa, þótt rúm skólans hafi verið notað í það ítrasta, og auk þess leigt hús gróðrarstöðvarinnar. Hefir þannig orðið að vísa frá 30–40 nemendum árlega. Er það allhá tala, og má búast við því, að slík frávísun spilli fyrir skólanum í framtíðinni, og jafnvel sje búin að því, vegna gremju, sem af því stafar, að svona mörgum verður að vísa frá, og snúa þeir ýmsir auðvitað í aðrar áttir til skólagöngu. Nemendur hafa sótt um inntöku alstaðar að af landinu, jafnvel úr Borgarfjarðarsýslu, og mundu ef til vill fleiri sækja, ef ekki væri kunnugt um, hve takmarkað húsrúmið er.

Jeg býst við, að skólahús þetta myndi nú vera reist, ef dýrtíðarerfiðleikar og fjárskortur hefðu ekki hamlað, því að fyrv. stjórn var málinu fylgjandi.

Þegar stóra lánið var tekið í fyrra, sendum við þm. Austfirðinga stjórninni áskorun um, að við væntum nú skjótra aðgerða í þessu máli. Var þá skömmu síðar gerð ráðstöfun til þess að aka sandi og möl að byggingarstaðnum, og skal jeg nú jafnframt geta þess, að því er nú að mestu leyti lokið, svo að á því stendur ekki.

En nú hefi jeg heyrt undir væng, að hæstv. stjórn muni ekki sjá sjer fært að byggja í sumar.

Áður en jeg fór af þingi í fyrra spurði jeg hæstv. fyrv. stjórn, hvað jeg mætti segja Austfirðingum um skólahússbygginguna, því jeg vissi, að

um það myndi spurt. Svaraði fyrv. stjórn því, að þessi bygging myndi verða látin sitja fyrir öllum öðrum, eða að minsta kosti jafnhliða stækkun Klepps. En við 2. umr. fjárlaganna nú í hv. Ed. lagði hv. frsm. fjárveitinganefndar þar þá spurningu fyrir hæstv. stjórn, hvenær Kleppur yrði stækkaður, vildi láta gera það tafarlaust með lántöku. Fjekk hann það svar, að stækkun Klepps yrði látin ganga fyrir öllu öðru. Þetta svar kom mjer til að koma með þessa fyrirspurn. Vildi jeg fá það skýrt fram, hvers væri að vænta af núverandi stjórn í þessu efni, og hvort hún þar hefði sömu stefnu og fráfarin stjórn, sem sje þá, að gera skólann sem best úr garði.

Mjer er vel kunnugt um nauðsynina til að stækka Klepp, en þess ber jafnframt að gæta, að þörfin er mikil til þess að stækka Eiðaskóla, svo að ekki sje freisting til að taka alt of marga í lítið skólarúm, með því að það er hættulegt fyrir heilsu nemenda, enda hafa farsóttir lagst þungt á nemendur á Eiðum sum þessi ár, vegna einangrunarerfiðleika.

Það hefir komið mesta skæðadrífa af skeytum að austan um bygginguna, eftir að jeg kom hingað suður, bæði til mín og annara hv. þm. Óttast menn hrörnun skólans, ef ekki er bygt nú þegar.

Eins og hæstv. stjórn og hv. deild skilja, er okkur Austfirðingum það brennandi áhugamál, að sem best sje sjeð fyrir útbúnaði þessa skóla, og sem fyrst. Við erum þegar búnir að sjá, að þetta óskabarn okkar hefir góða stefnu og heillarík áhrif á menningu ungmenna okkar. Okkur er þetta því fremur áríðandi, sem við eigum engan annan alþýðuskóla, verðum að senda það námsfólk okkar í aðra landsfjórðunga, sem ekki kemst að á Eiðum. En því fylgir ferðakostnaður, og jafnvel dýrari skólaganga að öðru leyti.

Jeg þekki vel fjárþröng ríkisins nú, og get því vel skilið erfiðleikana á því að koma upp þessu skólahúsi. En jeg vænti þess fastlega, að núverandi stjórn sýni áhuga og skilning á nauðsyn málsins, og að hún sjái sjer fært að flýta því, svo sem frekast eru föng á. Mönnum eru það mikil vonbrigði eystra, að byggingin ferst fyrir í sumar. Vil jeg geta sagt eitthvað ábyggilegt, þegar jeg kem austur í Fljótsdalshjerað, því jeg veit, að jeg muni verða fyrst krafinn sagna í þessu máli, eins og að undanförnu.

Fleiri orðum ætla jeg svo ekki að fara um þessa fyrirspurn.