12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (2096)

81. mál, brúargerð á Eyjafjarðará

Fyrirspyrjandi (Einar Árnason):

Það mun nú liðinn fullur aldarfjórðungur síðan raddir fóru að heyrast um það, að mikil nauðsyn væri á því að brúa Eyjafjarðará. Og eftir því, sem árin hafa liðið, hafa þessar raddir orðið æ háværari, kröfurnar ákveðnari og þörfin ríkari.

Jeg þykist vita, að öllum sje kunnugt um það, að þetta vatnsfall liggur í langfjölförnustu þjóðbraut norðanlands. Hitt er ekki jafnvíst, að mönnum sje ljóst, hvílíkur geysifarartálmi áin er. Nægir í því efni að benda á það, að næstum að segja hvert einasta ár er hún ófær vikum og jafnvel mánuðum saman, einmitt þann tíma árs, sem umferð er mest. Er þá engin leið önnur en að flytja fólk og flutning á árabátum yfir fjörðinn, eða fara 10–15 km. krók úr þjóðleið, til þess að komast á ferjubolla, sem ber 3–4 menn yfir ána.

Haust og vor, þegar ána er að leggja eða leysa, er hún líka oft langtímum saman ófær, og vetrarís á henni er mjög ótryggur. Er það næstum yfirnáttúrleg hamingja, að ekki hafa orðið slys að, þar sem endalaust verður að tefla á tæpum ís. Get jeg um það talað af eigin reynslu. Hefi jeg enga löngun til að fá hana áþreifanlegri en jeg er þegar búinn. Þykist jeg þó ekki fara ógætilegar en alment gerist.

Þegar nú þess er gætt, að þessi torfæra er rjett við aðalverslunarstað og miðstöð allra viðskifta norðanlands, þá er það augljóst, að hjer þarf bráðra umbóta við. Viðskiftalífið hefir svo gerbreyst á síðasta mannsaldri, að nú eru þær samgöngutorfærur gersamlega óþolandi, sem áður virtust lítt bagalegar. Verslunarviðskifti öll eru nú komin inn á þá braut, að öllum er það stórtjón, að þau geti ekki gengið sinn gang truflunarlaust. Enda eru greiðar samgöngur viðurkendar að vera sterkasta afltaugin í viðgangi og velmegun hvers þjóðfjelags.

Um þetta svæði leggur ferðamannastraumurinn leið sína. Það mun naumast líða svo dagur á sumrin, að ekki fari tugir manna yfir ána á svokölluðum Hólmavöðum, þar sem brúin á að vera, ef á annað borð er fært vegna veðurs eða vatnavaxta. Jeg vil einnig lenda á það, að austan Eyjafjarðarár liggja einhverjar frjósömustu og þjettbýlustu sveitir þessa lands. Þessar sveitir og Akureyrarbær þurfa að hafa daglegar flutningasamgöngur. Bærinn þarfnast daglega margs þess, er þessar sveitir geta veitt, svo sem mjólkur, smjörs, kjöts o. fl. En vegna brúarleysisins eru þessir flutningar næstum ókleifir.

Nú er það svo, að flestir bændur í Eyjafirði flytja vörur sínar til og frá Akureyri á hestvögnum; þeir, sem búa austan árinnar, geta það þegar hún er lítil, því að þá á hún að heita vagnfær á stöku stað. En þegar hún er í vexti, er ekki mögulegt að koma við vögnum, því að enginn flytur þá í litlum ferjubollum. Til skýringar skal jeg geta þess, að næsti ferjustaður við Akureyri er 5–6 km. frá bænum; það er því auðsætt, að vagnanna þarf með beggja megin árinnar. Þegar þannig stendur á, eru engin önnur úrræði en að flytja á hesthryggjunum, eins og það er nú líka ánægjulegt, þegar vagninn er til. Við þennan selflutning er þess enn fremur að geta, að á aðalferjustaðnum, þeim sem mest er notaður og næst liggur Akureyri, er áin svo breið, að ekki eru leggjandi í hana nema röskustu hestar, þegar sund er bakka á milli. Eru þess líka dæmi, að hestar hafa druknað á sundi á þessum ferjustað.

Enn er eitt, sem krefst þess afdráttarlaust, að brúin verði bygð nú þegar. Það er mannúðin, — mannúðin gagnvart skepnunum. Yfir ána er rekið sauðfje svo þúsundum skiftir til Akureyrar á hverju hausti. Margt af þessu fje er rekið langt austan úr sveitum Þingeyjarsýslu. Fjeð er þreytt. Haustveðráttan oftast köld. En í ána verður að reka fjeð næstum að segja hvernig sem veður er. Yfir þrjár kvíslar er að fara, og þrisvar þarf að sundleggja það. Má geta nærri, hvernig meðferð þetta er á skepnunum í kalsaveðrum og jafnvel snjóhríðum. Enda er það altítt, að bæði menn og skepnur eru að þrotum komið af vosbúð og kulda, þegar yfir ána er komið. Þarf hjer ekki að vera neinni harðýðgi til að dreifa. Það eru blátt áfram engin önnur ráð, — enginn annar vegur.

Jeg þarf ekki að drepa á fleiri atriði til þess að rökstyðja nauðsyn þessarar brúar, og það af þeirri ástæðu, að jeg veit, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) er svo kunnugur á þessum slóðum, og jeg er fyrirfram sannfærður um, að hann er mjer samdóma um þetta. En svo verð jeg að víkja örfáum orðum að gangi þessa brúarmáls á Alþingi og hjá stjórninni á undanförnum árum.

Áður en styrjöldin skall á, var þetta brúarmál til umræðu á Alþingi oftar en einu sinni, og áætlun um gerð brúarinnar og kostnað við bygginguna var þá þegar gerð af verkfræðingi landsins. Á Alþingi kom það brátt í ljós, að brúargerðin á Eyjafjarðará var sett í samband við brúargerð á Jökulsá á Sólheimasandi. Var kapp nokkurt um það, hvor brúin skyldi fyr bygð. Þetta reiptog varð til hins mesta ógagns fyrir alla, landssjóð líka. Málið eyddist í fleiri ár, og hvorug brúin var bygð. Ef hjer hefði verið hliðrað til, hefðu báðar brýrnar getað komist upp fyrir tiltölulega lítið fje.

Þó að jeg vilji benda á það í þessu sambandi, að umferð er tíu sinnum meiri yfir Eyjafjarðará en Jökulsá, þá er þó langt frá því, að jeg ætli að fara í nokkurn meting um þetta mál. En þess þykist jeg mega vænta, að þeir menn, sem næst stóðu Jökulsárbrúnni og hrundu því máli fram með mestu kappi, leggi ekki stein í götu Eyjafjarðarárbrúarinnar, eins og málum er nú komið.

Í fjárlagafrumvarpi því, sem stjórnin lagði fyrir þingið 1917, var fjárveiting til brúargerðar á Eyjafjarðará. Þessa fjárveitingu ljet þingið standa óhaggaða, og má af því sjá, að það hefir verið samhuga álit þings og stjórnar, að þegar bæri að hefjast handa um brúarbygginguna á næsta fjárhagstímabili. Þó varð ekkert úr framkvæmdinni árið 1918, og mun það hafa stafað af því, að ýmsir örðugleikar voru við það að fá frá útlöndum það efni, er til þess þurfti.

Á þinginu 1919 var sú ráðabreytni tekin upp, að samþykt voru sjerstök lög um brúargerðir. Er í þeim lögum gert ráð fyrir, að allar fyrirhugaðar brýr, sem ríkissjóður á að kosta, verði bygðar fyrir lánsfje. Af því leiðir það, að ekki er ætlast til, að fje sje veitt í fjárlögum til brúargerða. Eyjafjarðarárbrú var því ekki sett í þau fjárlög, sem það þing afgreiddi. Þó var því lýst yfir, að ekki bæri að skilja það á þá lund, að þetta ætti að tefja fyrir þeirri brúargerð, heldur þvert á móti. Því var og lýst yfir, að þær stallsystur í Eyjafirði og Sólheimasandi yrðu að sjálfsögðu fyrstu stórbrýrnar, sem bygðar yrðu fyrir lánsfjeð, og þess jafnframt getið, að þær yrðu samferða. Enda lá ekkert fyrir, sem gæfi ástæðu til þess að byggja Jökulsárbrúna fyr.

Þetta brúarlán var svo boðið út af stjórninni hjer innanlands árið 1920, og eftir því, sem jeg frekast veit, mun lánið hafa fengist.

Um þessar mundir var svo byrjað á byggingu Jökulsárbrúarinnar, og því verki mun lokið fyrir alllöngu síðan. Þar í sveit ætti því alt að vera rólegt, þótt farið væri nú að hreyfa við systur hennar í Eyjafirði, sem fallið hefir það hlutskifti í skaut að verða olnbogabarnið.

Sumarið 1920 átti jeg tal um Eyjafjarðarárbrúna við þáverandi forsætisráðherra (J. M.), er hann var á ferð í Norðurlandi. Taldi hann mikil tormerki á því, vegna dýrtíðar, að byrja það ár á undirbúningi. Kom okkur ásamt um það, að sjálfsagt væri að hefjast handa á næsta ári. Taldi jeg, að Eyfirðingar mundu sætta sig við þann drátt, en ekki lengur.

Síðastliðið haust var það tilkynt, að byrjað yrði á undirbúningi þennan vetur og brúin bygð sumarið 1922. Þessi fregn vakti almennan fögnuð, bæði í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum. Var þegar gerður samningur um flutning á möl að brúarstæðinu, ca. 1000 ten.-metra. Nú mun þessum flutningi lokið og mölin öll komin á staðinn. Flutningurinn var samningsvinna, og greiðir ríkissjóður 4 kr. fyrir hvern ten.-metra. Þegar nú þess er gætt, að svo langt var aðdrátta með mölina, að maður og hestur gátu ekki flutt meira á dag til jafnaðar en l½ ten.-meter, þá er það ljóst, að ríkissjóður hefir komist hjer að óvenjugóðum kjörum. Þess munu vera fá dæmi á þessum tímum, að minsta kosti þegar ríkissjóður á í hlut, að menn sætti sig við að vinna aðeins fyrir mat sínum. Kaup fram yfir fæði mannsins, fóður hestsins og áhaldaslit hefir bókstaflega ekki verið neitt. En menn töldu það ekki eftir sjer, þegar þeir höfðu það á tilfinningunni, að þeir voru að leggja hornsteininn að byggingu þessarar langþráðu brúar.

En vonbrigðin urðu líka mikil, þegar það fór að kvisast, litlu eftir veturnætur, að stjórnin ætlaði að stöðva framkvæmd verksins. Menn vildu ekki trúa því og geta ekki trúað því enn, að svo sje í raun og veru. Það er svo sjálfsögð rjettlætiskrafa, að haldið verði áfram, að ekki getur komið til mála, að verkið sje nú stöðvað. Margra ára loforð og margra ára dráttur verða að fá einhvern enda, og sá endir má ekki og getur ekki orðið nema á einn veg: að brúin verði bygð í sumar. Allar stærri ár norðanlands eru þegar brúaðar fyrir löngu: Blanda, Hjeraðsvötn, Fnjóská, Skjálfandafljót, Jökulsá o. fl. Eyjafjarðará er ein eftir, versti farartálminn rjett við miðstöð allrar menningar og viðskifta norðanlands.

Jeg hefi nú fært nokkur rök fyrir því, að þessi fyrirspurn er fram komin, og vænti þess að fá að heyra fyrirætlanir núverandi stjórnar. En það vil jeg taka sterklega fram, að Eyfirðingar og Þingeyingar láta sjer ekki í ljettu rúmi liggja, hver svör hæstv. stjórn veitir um þetta mál.