27.03.1922
Neðri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

1. mál, fjárlög 1923

Björn Hallsson:

Það er viðvíkjandi brtt. minni og háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst.J.), sem jeg vildi segja nokkur orð. Hún er 4. brtt. við 12. gr., og fer fram á 2000 króna styrk til sjúklings þess, sem þar getur. Sjúklingur þessi hefir verið veikur síðan í fyrra og er það enn, þótt hann sje heldur á batavegi. Hreppsnefndin í hlutaðeigandi hreppi hefir skrifað mjer um þetta mál og hefir háttv. fjvn. haft það brjef, svo henni mun kunnugt um efni þess í öllum höfuðatriðum. Þegar þetta brjef var skrifað, var hreppurinn búinn að kosta 5000 krónum til sjúklings þessa, og við það bætast svo 1300 krónur, sem jeg og háttv. samþingismaður minn (Þorst.J.) höfum greitt vegna hreppsnefndar þessa hrepps síðan um áramót. Þessi mikli kostnaður stafar af því, að sjúklingurinn fjekk ekki rúm á geðveikrahælinu, en hann er hinsvegar fátækur barnamaður, og getur því ekki kostað sig sjálfur. Nú er þetta fáment hreppsfjelag, sem hefir aðeins um 22 búandi menn, og verður þetta því þungur baggi fyrir það, auk annara sveitarþyngsla, ekki síst þar sem það hefir annan slíkan sjúkling fyrir. Brjef hreppsnefndarinnar fer fram á, að sjúklingur þessi verði látinn sæta sömu kjörum sem sjúklingar þeir, sem á Kleppi eru — en þeir þurfa ekki að borga meira en 2 krónur á dag og hitt goldið af ríkisfje. Þetta telur háttv. fjvn. ókleift og ber það fyrir, að víða annarsstaðar á landinu sjeu slíkir sjúklingar, sem verði að sæta sömu kjörum. Jeg skal játa, að nokkur sveitarfjelög hjer á landi munu verða að bera svipaða bagga, en líklega hafa fá þeirra neyðst til að kosta svo miklu til sem þetta. Enda er hjer aðeins farið fram á, að ríkissjóður borgi 1/3 af kostnaði þessum, sem er orðinn á rúmu ári 6300 kr., eða 2000 krónur, og tel jeg það hóflega upphæð.

Síðan sjúklingur þessi kom hingað suður, hefir hreppurinn orðið að borga fyrir hann fyrst 24 krónur á dag og síðan 15 krónur á dag, og munu menn sjá, að slíkt er mjög tilfinnanlegur kostnaður. Að vísu er sjúklingur þessi nú á batavegi, þótt eigi sje hann heilbrigður orðinn, en hreppsfjelagið hefir ekki efni á því að kosta hann. Verður hann því sendur heim bráðlega. Vonast jeg nú til, að háttv. deild líti eins og vera ber á þetta mál og hlaupi undir bagga með hreppsfjelagi þessu. Það er fylsta sanngirni.

Háttv. frsm. fjvn. (B.J.) hefir nú skýrt frá því, að nefndin sje á móti þessu, og furðar mig ekki svo mjög á því, eftir fregnum frá henni áður, en hitt þótti mjer undarlegra, að frsm. nefndarinnar skuli vera á móti því. Hann er þó kunnur að því áður að vera meðmæltur flestum bitlingum, og bjóst jeg við, að hann mundi greiða atkv. með þessu máli. (B.J.: Jeg er ekki með vitlausum mönnum). Það er nú svo; en hvað sagði þessi háttv. þm. um það atriði 1915? Þá skrifaði hann háttv. fjárveitinganefnd Nd. svo hljóðandi brjef:

„Dalamenn krefjast þess, að geðveikrahælið á Kleppi sje stækkað um helming.

Bjarni Jónsson“.

Er þetta ekki að vera með vitfirringum?!! Það er líka full þörf á því að hlynna að þeim, svo erfið sem er geymsla þeirra. Þarf því að stækka Klepp sem fyrst. Þetta sáu Dalamenn 1915, og furðaði fáa á því. Annars skal jeg segja háttv. þm. það til hróss, að hann er nú búinn að sjá fram á, að stefna hans í fjármálum hefir ekki verið góð og er að byrja að sjá að sjer. Sannast á honum, að batnandi manni er best að lifa.

Jeg hefi talið mjer skylt að fylgja þeirri reglu á þessum síðustu og verstu tímum að reyna að fylgja skynsamlegri íhaldssemi í fjármálunum. Enda er fjárhagur ríkisins ekki svo glæsilegur, að af veiti. Get jeg í því sambandi ekki annað en lýst fremur ánægju minni yfir fjvn., því hún hefir í flestum till. sínum tekið tillit til hins þrönga fjárhags ríkissjóðs og sýnt miklu meiri gætni í þeim efnum en sú fjárveitinganefnd, sem var í fyrra. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fjölyrða um þennan kafla fjárlaganna.