02.03.1922
Efri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

39. mál, vegir

Flm. (Björn Kristjánsson):

Jeg vænti þess, að hv. þm. hafi kynt sjer ástæðurnar fyrir frv. þessu. Eins og menn þekkja, er Gullbringusýsla ein af þeim sýslum, er gefa landssjóði mestar tekjur. Það var því eigi furða, þótt þingið í seinni tíð veitti sýslunni nokkurt fje til að leggja vegi yfir hin ófæru hraun.

En á síðari árum, eða síðan 1913, hefir framlag ríkissjóðs farið minkandi og styrkurinn til samgangna á sjó alveg horfið. Allir aðrir flóar landsins hafa notið styrks í miklum mæli á stríðsárunum og síðan.

Alt, sem flytja þarf til Keflavíkur, verður því að flytjast landveg um þennan veg, ef það fæst ekki flutt með bátum „prívat“-manna, sem engar áætlunarferðir fara. Flutningurinn verður því miklu dýrari og vegurinn slitnar þeim mun meira. Á meðan gufubátaferðir voru um sunnanverðan Faxaflóa, fóru allar þungavörur með þeim og mikill hluti farþega.

Í öllum sýslum landsins mun einhver vegarspotti heita þjóðvegur og viðhald hans kostað af landsfje, nema í Gullbringusýslu. Það mun liggja í því, að menn áður bygðu á samgöngum á sjó, sem nú eru horfnar að mestu.

Úr því þingið vill ómögulega styrkja lengur samgöngurnar á sjó, þá vænta bygðarlögin þess, að hið háa Alþingi vilji þó eitthvað gera fyrir þau, eins og aðra, í þessu efni.

Og það ætti þá að vera viðhald vegarins.

Allir sýsluvegir í sýslunni munu vera um 87 km., en þessi vegur er um 38 km. Vegur þessi er afarfjölfarinn. Auk íbúa sýslunnar nota hann, auk Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, Kjósar-, Árnes- og Rangárvallasýslur. Og alt er nú flutt á vögnum, sem slíta veginum meira en hestarnir áður gerðu.

Jeg leyfi mjer svo að stinga upp á, að máli þessu verði vísað til samgmn. að umr. lokinni.