23.03.1922
Efri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (2109)

39. mál, vegir

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg hefi litlu við að bæta það, sem í nál. stendur. Það er öllum kunnugt, að margítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar hjer á þingi til þess að breyta vegalögunum frá 1907, einkum í þeim atriðum, er snerta flokkun veganna, og þau ákvæði þeirra, um viðhaldsskyldu sýslufjelaganna, sem þar af fljóta. Jeg skal aðeins nefna í þessu sambandi baráttu Árnes- og Rangárvallasýslna um það að fá ljett af sjer hinni fjárhagslega drepandi viðhaldsskyldu á flutningabrautum sinum. Allar slíkar tilraunir hafa jafnan strandað á því, að ríkissjóður hefir ekki treyst sjer til þess að bæta á sig útgjöldum þeim, sem þessi breyting mundi hafa í för með sjer, þar sem vitað er, að fjöldi sýslufjelaga stynur undir þessari byrði; tekjustofnar sýslusjóðanna eru hvergi nærri nógir til þess að standa straum af viðhaldinu. Þetta hefir þingið viðurkent í sjálfu sjer, þótt ekki hafi það sjeð sjer fært að taka einstakar flutningabrautir út úr kerfinu á sína arma. Það hefir því samþ. þál.till., nú síðast 1919, með viðbót 1920, um að endurskoða vegalögin í heild sinni og útvega sýslunum nýja tekjustofna í þessu skyni. Þetta hefir stjórnin ekki gert enn þá, en frá samgmn. Nd. kom inn á síðasta þing frv. um tekjustofna sýslusjóðanna, samið af vegamálastj., en það frv. þótti ekki aðgengilegt og var vísað til stjórnarinnar til lagfæringar; síðan hefir lítið af því heyrst — því miður.

Og þó hefir þing og stjórn viðurkent vandræði sýslufjelaganna meðal annars með því, að þau hafa, svo sem rjett er, ekki treyst þeim til að kosta endurbyggingu brautanna. Fjárhagsástand landsins hefir ekki breyst til batnaðar, eins og allir vita, og það er því engin von til, að ríkissjóður treystist frekar nú en áður til að leggja fram fje til þess að ljetta þessari byrði af sýslunum, svo að nefndin treystist alls ekki til að leggja það til, að frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, nái fram að ganga, þar sem það mundi hafa mikinn útgjaldaauka í för með sjer, og það í hag aðeins einu sýslufjelagi. Þetta sjá allir að yrði misrjetti.

Nefndinni fanst því það ráð tiltækilegast, sem farið er fram á í nál., sem sje að veita hjálp til endurbyggingar á eyðilögðum og útslitnum köflum í veginum, vegna bifreiðaferðanna, af bifreiðaskattinum.

Vegalögunum er hjer ekkert hróflað, en ljett undir með sýslunni án þess að ganga á rjett annara.

Vegna alls þessa leggur nefndin til, að málið verði afgreitt með þeirri rökstuddu dagskrá, er fyrir liggur.