10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög 1923

Einar Árnason:

Það er út af brtt. á þskj. 215 frá samvinnunefnd samgöngumála, sem jeg ætla að segja fáein orð. — Nefndin leggur til, að stafliður b, um ákveðna styrkveitingu til Grímseyjarferða, falli niður. Eftir að bæði hæstv. atvrh. (Kl. J.) og háttv. frsm. (H. St.) hafa lýst því yfir, að Grímseyjarferðirnar skuli einskis missa í við það hvað styrk snertir, þá get jeg vel samþykt, að liður þessi falli niður.

Vildi jeg svo í þessu sambandi gera fyrirspurn til frsm. háttv. samgöngumálanefndar (G. G.), hvort gerðar hafa verið till. til stjórnarinnar um styrk til Grímseyjarferða í sumar. Í gildandi fjárlögum eru 100 þús. kr. veittar til mótorbátaferða, en mjer er ekki kunnugt um, að neitt af því fje sje veitt til Grímseyjarferða Vænti jeg að fá svar við þessari fyrirspurn minni.