10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg hefi eigi mikið að athuga við brtt. háttv. fjvn. á þskj. 207, nema tvær. Get jeg eigi verið sammála háttv. frsm. (H. St.), er hjelt því fram að Flóra Íslands væri hentug skólabók. Er hún að mínu viti eigi hentug sem slík, en mikið hentugri sem alþýðubók. Mun jeg þó verða með till.

Um leiðbeiningu um raforkunotkun skal jeg taka það fram, að jeg álít ekki nægilegt, að 1000 kr. geti verið til taks, ef á þarf að halda, en að hlutaðeigendur borgi allan kostnað að öðru leyti, eins og verið hefir fram að þessu ári. Jeg býst við, að það hafi verið meining stjórnarinnar, að upphæðin væri svo rífleg, að hægt væri að leiðbeina mönnum, þeim að kostnaðarlitlu. Jeg skal geta þess, að jeg veit um það, að 2 umsóknir munu koma, og eftirspurnin fer sívaxandi. Því álít jeg eigi rjett að fella liðinn niður.

Um Eyrarbakkabryggjuna vil jeg taka það fram, að þm. Árn. ættu að vera þakklátir nefndinni fyrir hina föðurlegu umhyggju hennar fyrir sýslunni. Jeg hefi fengið upplýsingar um það, að sýslan og Eyrbekkingar muni geta lagt fram fje á móti upphæð þessari.

Úr því að jeg mintist á brtt. nefndarinnar, þá skal jeg geta þess, að jeg tel það viðurhlutamikið að fella fjárveitinguna til Jóns Ísleifssonar, þar eð það er viðurkent af háttv. Nd., að mjög mikið vit sje í áformi hans. Háttv. frsm. (H. St.) sagði, að mjög óvíst væri, hvort þetta kæmi að notum, en hvar hann hefir fengið vitneskju um það, er mjer ókunnugt. Hvað viðvíkur hinum nýja lið til Jóns Kristjánssonar, þá er þess að geta, að stofnun sú, er hann heldur uppi, er notuð af mönnum úti um alt land. Húsnæði það, sem hann hefir nú, er mjög óhentugt fyrir klínik, og er jeg því alveg sammála háttv. nefnd um þennan lið.

Um klæðaverksmiðjurnar hefi jeg ekki margt að segja. Jeg skal játa, að málið er mjög illa undirbúið, en er þó vaxandi áhugi fyrir því. Jeg býst eigi við, að til framkvæmda komi á næsta ári, og álít jeg því, að upphæðin mætti standa, til þess að ýta undir menn að undirbúa málið.

Jeg vildi sjerstaklega minnast á eina brtt. mína, sem sje 6. lið I. brtt. á þskj. 223, um fornbrjefasafnið. Jeg hjelt að þetta starf heyrði undir þjóðskjalavörð. Annars finst mjer það mjög óviðkunnanlegt að launa menn fyrst vel og borga svo hvert aukaverk, sem þeir inna af hendi.

Sama er að segja um Alþingisbækumar, að jeg vil aðeins láta greiða útgáfukostnað, og annað ekki.

Þá kem jeg að III. brtt. á sama þskj. um búnaðarfjelögin. Er það vitanlegt, að styrkur sá, er búnaðarfjelagsmeðlimir njóta af landsfje, er mjög lítill. Finst mjer undarlegt að heyra, að það muni ýta nokkuð undir menn til framkvæmda að fá ca. 15 aura á dagsverkið. Það veit hver maður, hvað jarðabótamenn fá í vasann á þennan hátt. Jeg álít, að styrknum væri mikið betur varið, ef búnaðarfjelögin notuðu hann eingöngu til verkfærakaupa.

Þá kem jeg að eftirliti með hrossaútflutningi. Því miður er liður þessi lögboðinn. En jeg tel það algeran óþarfa að launa það sjerstaklega, því að jeg álít, að það heyri undir dýralækninn í Reykjavík.