10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

1. mál, fjárlög 1923

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil athuga lítillega fáeinar brtt. Fyrst verður fyrir mjer till. um að færa niður laun garðyrkjustjóra úr 6 þús. kr. niður í 5500. Nú er sparnaðarstefna ráðandi, og má því varla búast við minni lækkunartill. en þessari. En í þessu sambandi vil jeg minnast á styrk til garðyrkjufjelagsins. Þann lið vil jeg fella. Þetta garðyrkjufjelag mun vera garðyrkjustjórinn sjálfur, og þætti mjer eðlilegra að láta laun hans standa óbreytt 6 þús. kr., en fella þennan 500 kr. styrk. Og hjer við bætist, að aftan við þessa styrkveitingu hefir verið hnýtt athugasemd, sem er með öllu óhafandi. Hún fer fram á það, að garðyrkjustjóri standi fyrir tilraunum í Gróðrarstöðinni. Eins og menn vita, þá er starf hans í því fólgið að ferðast um landið og leiðbeina mönnum, og kærir hann sig víst ekkert um að vera tjóðraður við Gróðrarstöðina, en fyrir henni stendur ungur og efnilegur maður, sem kynni því eðlilega illa, að vera þannig gerður að undirtyllu. Þess vegna verð jeg að vera með till., þó að jeg hinsvegar gæti fallist á að veita einhverja upphæð til Garðyrkjufjelagsins við t. d. 3. umr.

Þá er brtt. háttv. 2. þm. Rang.(G. Guðf.) um að einskorða styrkinn til búnaðarfjelaganna við verkfærakaup. Þetta álít jeg hreina fjarstæðu. Jeg er honum sammála um það, að óheppilegt sje að skifta fjenu niður milli margra manna, því að þannig kemur það að litlum notum. Jeg vil láta verja fjenu til sameiginlegra framkvæmda, og því ekki veita það með öðrum skilyrðum. Jeg veit til þess af eigin reynslu, að verkfærakaupin hafa mistekist hrapallega oft og tíðum, og tel jeg því sjálfsagt að fara þá leið, sem jeg benti á. Jarðir liggja oft svo, að hægt er að koma að stórfeldum jarðabótum, sem verða öllum jörðunum til góðs, en einn einstakur fær ekki ráðist í, og væri nær að styrkja slík fyrirtæki en að brytja styrkinn niður. Jeg veit þetta af eigin reynslu. Til er fjelag, sem heitir Jarðræktarfjelag Reykjavíkur, og frá Reykjavík að Geirólfsgnúp þekki jeg ekki jafnómerkilegt fjelag. Þar hefir verið samþykt stundum að kaupa verkfæri fyrir styrkinn, en ýmist hefir ekkert úr því orðið eða verkfærin hafa tínst eða ryðgað niður. Jeg veit það ekki. Jeg hefi aldrei sjeð neitt verkfæri, sem fjelagið á, og þó hefi jeg setið á aðalfundum þess, þar sem mættu 5–7 menn. Jeg hefi stungið upp á því í þessu fjelagi, að styrknum yrði varið til einhvers sameiginlegs starfs, að t. d. Vatnsmýrin væri kortlögð og síðan ræst fram, en jeg get ekki búist við miklum stuðningi frá Jarðræktarfjelaginu, en hins vegar hefir Búnaðarfjelagið tekið vel í málið. Þetta er mikið verk og mundi vera að því stórkostleg jarðabót, en til þessa hefir ekkert verið gert fyrir jarðabætur í Reykjavík. Þetta er sameiginlegt starf, því að margir njóta þarna góðs af. Jeg bý t. d. efstur undir Öskjuhlíð, og þyrfti því langan affallsskurð, en jeg get ekki ræst fram nema aðrir geri það líka. Jeg fór nú fram á það, að byrjað væri niður við Tjörn, og sýndi jeg fram á, að mjer bæri eins að greiða þann kostnað sem hinum, þó að jeg byggi efstur. Eins og jeg gat um áður, hefir Búnaðarfjelagið tekið þessu snildarvel og boðið fram styrk, en aðiljar fengust ekki til að mæta á fundi. Svona vill það oft fara. Og þó eru slík sameiginleg störf það besta, sem unnið yrði landbúnaðinum, ef menn fengjust til þess að vera samtaka. Verkfærakaupin hafa farið út um þúfur; þau geta reynst vel, en ekki er rjett að einskorða við þau. Best er að veita styrkinn með þeim skilyrðum, sem tekin eru fram í fjárlagafrumvarpinu. Jeg þarf eigi að eyða fleiri orðum um þessa brtt. háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) við 16. gr. 3, en vona að deildin felli hana.

Þá er það 35. brtt. frá fjárveitinganefnd, við 21. gr. 10, um að lánveiting til Jóns Ísleifssonar verkfræðings falli niður. Mjer þætti leitt, ef háttv. deild feldi þennan lið, því ef rjett er athugað, er hjer ekki um neina eyðslu að ræða. Hið eina, sem gæti verið nefndinni til afsökunar, er það, að fje sje ekki fyrir hendi til lánsins, því hjer er um augljóst nauðsynjamál að ræða, sem gæti orðið landinu að miklum notum í framtíðinni og sparað því fje, margfalt meira en hjer er farið fram á, að það láni gegn fullri tryggingu.

Hjer er nefnilega um tilraun að ræða til nýrrar aðferðar við húsbyggingar, ódýrari en hjer hefir áður þekst. Auk þess er krafan ekki hærri en það, að lánbeiðandi biður um upphæð, sem eigi er nema 2/3 af áætlunarverði hússins.

Háttv. þm. munu nú ef til vill halda því fram, að ódýrara mætti byggja en þetta til þess að gera þessa tilraun. Það er auðvitað rjett, en hjer er að því að gæta, að lánbeiðandi ber sjálfur alla ábyrgð á fjenu, sem í þetta er varið. Því er mjög eðlilegt, að hann byggi um leið íbúðarhús handa sjer. Hefði hann ætlað að gera tilraun í smáum stíl, mundi hann hafa sótt um styrk, en eigi lán.

Hús þetta verður bygt með sambyggingarsniði, á ódýrari hátt en hjer hefir áður þekst. Útveggir t. d. mjög frábrugðnir því, sem hjer er tíðkað nú. Tilraun þessi er þar að auki alls ekki ný; hún hefir verið gerð fyrir löngu í Ameríku og þótt gefast vel. Hefi jeg sjeð amerískt tímarit frá 1910 með myndum og uppdráttum af þesskonar húsum, og er þar miklu lofsorði á þau lokið. Eins hefir þetta þekst í Svíþjóð og Danmörku, og hafa staðið lofsamleg ummæli um það í danska blaðinu „Börsen“.

Að því er sparnaðinum viðvíkur, þá get jeg tekið það fram, að verðið verður 45 þúsund kr. Hafa uppdrættir og kostnaðaráætlun verið borin undir Einar Erlendsson, sem er aðstoðarmaður hjá byggingameistara ríkisins, og hefir hann athugað það alt nákvæmlega og áætlað, að það verði um 33% ódýrara en venjulegar byggingar, og þó hlýrra, hentugra og betra en nú tíðkast, t. d. hús með tvöföldum steinveggjum. Þetta er mjög álitlegt og þess vert, að það sje athugað.

An þess að jeg ætli mjer að halda hjer byggingarfræðislegan fyrirlestur, vildi jeg þó lýsa gerðinni í aðalatriðum. Á steyptum kjallaraveggjum er reist grind, sem er helmingi þjettari en venjulega gerist. Utan á hana er negldur bikpappi, og svo sem með 2 cm. bili er fest á hana járnnet, því næst steyptur 5 cm. þykkur veggur upp að pappanum. Síðan er tróð lagt í alla útveggi, sem er móhnausar, klístraðir saman með koltjöru, og jafnframt innan í grindina negldar gjallplötur eða þiljur.

Sniðið á húsinu er þannig, að það eru 2 hæðir og hver íbúandi hefir íbúð upp úr. Yfirleitt er auðsjeð á teikningunni, að húsið muni verða mjög þægilegt, en þó svona ódýrt, að Einar Erlendsson ætlar að á þessu húsi muni sparast 8000 krónur. Þegar umsókninni er þar að auki svo varið, að þetta er tilraun, sem ríkissjóður ber enga ábyrgð á, heldur trygð með fullgildri tryggingu, þá vona jeg að háttv. þm. hugsi sig um áður en þeir greiða atkvæði móti beiðninni.

Svo kemur nefndin með nýja tillögu við 21. gr. 10, sem sje að veita Jóni Kristjánssyni nuddlækni alt að 20000 kr. lán til að reisa hús með nuddlækningastofu. Um þessa tillögu er það að segja, að brýn nauðsyn er á, að hún nái fram að ganga. Húsbygging Jóns Ísleifssonar er sparnaðartilraun, sem getur komið að góðu haldi í framtíðinni. En hjer er um nokkurskonar spítala að ræða. Hús þetta þyrfti að vera vandað og rúmgott, og eins þyrftu að vera næg og góð lækningatæki. Alt þetta er kostnaðarsamt fyrir einstakan mann að koma upp, en hjer er um viðurkenda lækningaaðferð að ræða, sem mörgum sjúkling hefir að bata orðið, og er því full ástæða til að ríkið hlaupi hjer undir bagga.

Jeg hefi ekki meira að segja um þessar tillögur nú, en vona, að háttv. þm. athugi vel þessar tillögur áður en þeir greiða atkvæði móti þeim.