10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Það var aðeins stutt athugasemd. Háttv. frsm. lýsti yfir því, að engin till. hefði fundið náð fyrir augum nefndarinnar. Jeg veit því eigi, hvort háttv. nefnd hefir tekið sjer „patent“ á brtt., þar sem hún er á móti þeim, þó að þær fari í sparnaðaráttina, eins og t. d. brtt. við 15. gr. 13 á þskj. 223, um fornbrjefasafnið. Jeg heyrði því miður eigi rök hæstv. atvrh. (Kl. J.), og get því eigi svarað þeim. En jeg hjelt að þjóðskjalavörður væri slíkur áhugamaður um fornfræði, að eigi þyrfti að kaupa hann til þessa starfa.

Mjer skildist helst á háttv. frsm. að hrein óhæfa hefði verið að koma fram með brtt. við 16. gr. 3, á þskj. 223, um búnaðarfjelög. En það er hið sama um þessa till. sem hina fyrri að segja, að jeg heyrði eigi rök háttv. 4 landsk. og hæstv. atvrh. og get því eigi svarað þeim.

Hvað viðvíkur leiðbeiningu um notkun raforku, þá skal jeg geta þess, að jeg get eigi fallist á rök háttv. frsm. um það, að liðurinn megi falla niður, þegar af þeirri ástæðu, að umsóknum fer sífjölgandi.

Um Eyrarbakkabryggjuna skal jeg leyfa mjer að taka það fram, að mjer finst nefndin gerast æðileiðitöm, ef hún fellir þessa brtt., en tekur upp Ólafsfjarðarbryggjuna.