12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get verið fáorður um þær brtt., sem jeg á við fjárlögin við þessa umr.

Um skólagjöldin get jeg tekið það fram, sem jeg hefi áður sagt um þau, að jeg er þeim með öllu mótfallinn. En hins vegar er óþarfi að fjölyrða um það nú, þar sem samkomulag hefir fengist við nefndina um það atriði, sem jeg var sjerstaklega óánægður með. Vænti jeg því aðeins, að háttv. deild geti fallist á athugasemdina við 14. gr. B. VII, sem gengur í þá átt, að heimilt sje að veita undanþágu frá þessu gjaldi fátækum, efnilegum nemendum.

Þá er IX. brtt. á þskj. 242 um styrk til Haraldar Guðmundssonar, sem jeg vildi fara örfáum orðum um.

Háttv. fjvn. hefir ekki getað aðhylst þessa brtt., og býst jeg við að það sje af sparnaðarástæðum.

Hjer er ekki um stóra upphæð að ræða, og eftir þeim vottorðum, sem fyrir liggja um þennan mann, virðist svo, að hann sje þess vel maklegur að afla sjer frekari þekkingar í þessari fræðigrein.

Vottorðin benda öll ótvírætt í þá átt, að hann hafi unnið mjög þarft verk fyrir hjeruðin þar eystra. Enda sjest líka á þeim, að menn vilja að hann haldi þessari starfsemi áfram.

Síðastliðið vor var Haraldur á ferðalagi með Hannesi Jónssyni dýralækni úr Stykkishólmi. er hann var á eftirlitsferðum í Árnessýslu, viðvíkjandi útrýmingu á fjárkláðanum þar. Átti jeg von á vottorði frá þessum dýralækni; en hann mun eigi hafa getað komið því við, sökum þess, að hann hefir verið á ferðalagi nú að undanförnu. Hefir Haraldur hugsað sjer að verða með dýralækni þessum nú á komandi vori, og ætlar að nota þennan styrk til þess að borga manni, er hann þarf að hafa fyrir sig heima á meðan. Styrkbeiðni þessi er ekki há, en jeg gæti þó til samkomulags gengið inn á að lækka hana eitthvað.

Þá á jeg brtt. á þskj. 246, ásamt háttv. þm. Vestm. (K. E.). Eins og kunnugt er, hefir verið samþykt í háttv. Nd. og afgreitt hingað frv., er gengur í þá átt að gera fræðslulögin rýmri.

Mjer er líka kunnugt um, að fræðslumálastjóri hefir áður gengið inn á þetta, með því að veita undanþágu frá skólahaldi, einnig vegna erfiðleikanna á því, að fá nægilega marga kennara, sem lokið hafa kennaraprófi.

Jeg geri því eindregið ráð fyrir, að þessi undanþáguheimild verði mjög mikið notuð, og eftirlitskensla fari að sama skapi í vöxt. Er því sýnilegt, að þær 5000 kr., sem ætlaðar hafa verið til farskóla og eftirlitskenslu er alt of lítil upphæð, ef breytingin gengur í þessa átt. Höfum við því komið með brtt. um að taka 5000 kr. af föstum kennaralaunum og færa yfir á farskólana. Og þó að föstum kennurum fækkaði eitthvað við það, tel jeg það hættulaust. Jeg vænti þess eindregið, að þessi till. verði samþykt.

Þá hefi jeg orðið með VI. brtt. á þskj. 242, um að styrkurinn til Leikfjelags Reykjavíkur verði hækkaður úr kr. 2000 upp í kr. 4000. Jeg skil eigi að nokkur þurfi að sjá eftir því, þó að fjelag þetta fái þennan styrk, því að eins og kunnugt er hefir það unnið mikið og mjög óeigingjarnt starf nú um margra ára skeið. Vænti jeg því fastlega, að þessi tillaga verði samþykt.