19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Áður en jeg byrja mál mitt sem frsm. fjvn, verð jeg að skýra frá því, að mjer þykir leiðinlegt að þessi atkvgr. fór svo, því fjvn. hafði of lítinn tíma til undirbúnings og má því kannske að nokkru leyti kenna henni um, að brtt. þessi kom of seint fram.

Um frv. sjálft verður varla ástæða til að verða langorður nú, þar sem það hefir orðið ofan á í fjvn. að bera engar brtt. fram, heldur ráða háttv. deild til að samþykkja það óbreytt. Þetta er þó ekki gert með neinni sjerstakri ánægju, heldur þvert á móti með samviskunnar mótmælum gegn ýmsum brtt. háttv. Ed. bæði þeim, er til útgjaldaaukninga horfðu, og eins sumum hinna, en þó einkum hinum fyrnefndu.

Háttv. Ed. hefir að vísu ekki gert miklar breytingar, en jeg get þó bent á tvennar 10 þúsundir, sem sú háttv. deild hefir felt og ætlaðar voru til verklegra framkvæmda, en í stað þeirra teknar upp aðrar fjárveitingar, sem að nefndarinnar dómi voru langtum ónauðsynlegri. — Þá hefir nefndinni þótt skrítið, hvernig háttv. Ed. hefir farið með 21. gr. Verður eigi talið annað en skopleikur að veita heimild til útlána, þar sem ekkert fje er fyrir hendi, en færi svo, að eitthvert fje yrði afgangs, væri nær að ríkissjóður lánaði sjálfum sjer það til verklegra framkvæmda, þeirra, er orðið hafa að bíða vegna fjárþröngar.

En þrátt fyrir þetta gat nefndin látið sjer lynda að leggja engar breytingar til, þar sem hún á engan hátt gat treyst því, að fjárlögin yrðu henni nær skapi síðar en þau nú eru. Einkum þar sem það hefir sýnt sig, að báðar háttv. deildir eru örari á fje heldur en fjvn. Nd, enda ekki hægt að segja, að ágreiningurinn milli deildanna sje þannig vaxinn, að um veruleg stefnumál sje að ræða, heldur aðallega fjárhæðir.

Ef litið er á meðferð fjárlaganna á þessu þingi, sjest, að útgjöldin hafa, eftir meðferðina í þessari háttv. deild, minkað um 116 þús. kr. frá því, sem áætlað var í frv. hæstv. stjórnar. Háttv. Ed. hefir furðanlega haldið sjer í skefjum, þar sem útgjöldin hafa ekki aukist hjá henni nema um rúmar 2 þús. kr. — Þrátt fyrir þessa gjaldaukningu hefir þó sú háttv. deild sent frv. aftur hingað með minni reikningslegum tekjuhalla en á því var, er það fór hjeðan, svo fljótt á litið mætti ætla, að hún hefði sparað, eða verið sparsamari en þessi hv. deild. Og það virðast engar getsakir, þótt sagt sje, að hún muni hafa ætlað að láta líta svo út. En þessi lækkun tekjuhallans er til orðin á þann hátt, að tekjuáætlunin var hækkuð um 75 þús. kr. Þetta hefir vitanlega enga sjerstaka þýðingu, því ekki aukast tekjurnar við það, þótt þær sjeu áætlaðar hærri. En þar eð nefnd þessarar hv. deildar telur ekkert ólíklegt, að tekju- og eignarskatturinn muni nema því, sem háttv. Ed. hefir áætlað, þá lætur hún við svo búið standa. Aftur á móti er annað atriði, sem lítur að tekjubálkinum, er háttv. Ed. hefir breytt og sem jeg vil mótmæla fyrir hönd fjvn., en það er þegar hún feldi burt bifreiðaskattinn. Fjvn. telur sjálfsagt, að framvegis verði sá siður hafður, að þessar lögboðnu tekjur verði taldar meðal annara tekna ríkissjóðs, bæði í fjárlögum og landsreikningi, enda þótt aðeins megi nota það fje til ákveðinna framkvæmda, enda verði þær framkvæmdir aftur færðar gjaldamegin. Þessu vill nefndin beina til hæstv. stjórnar og jafnframt taka það fram, að hún telur rjett, að tekjur og gjöld af öllum þeim fyrirtækjum, er ríkið rekur, verði færðar í fjárlögunum, svo fjárveitingavaldinu gefist betri kostur á að fylgjast þar með heldur en ef aðeins eru færðar væntanlegar hreinar tekjur, eins og nú á sjer stað, t. d. um tóbaksverslunina. Væntir nefndin þess, að hæstv. stjórn taki þetta til yfirvegunar.

Þá má geta þess, að nokkur erindi, er snerta fjáraukalög þessa árs, hafa legið fyrir háttv. Alþingi, og fjvn. hefir því haft til meðferðar. En þar sem ekkert frv. til fjáraukalaga kom frá stjórninni, gat nefndin ekki gert till. um þau til Alþingis, og munu þó sum tvímælalaust þykja hin mesta nauðsyn. Við þessi erindi hafði því nefndin engin önnur ráð en að vísa þeim til stjórnarinnar, og verður hún því á eigin ábyrgð að ráða fram úr þeim atriðum. En út af þessu vil jeg láta þess getið, að jeg tel rangt að láta þetta geta komið fyrir. Jeg tel rangt að láta ekki koma fram fjáraukalagafrv. á hverju þingi, svo framarlega sem stjórnin gerir ráð fyrir, að greiða þurfi eitthvert fje, sem ekki er heimild fyrir í fjárlögum, og það þótt smátt sje. Í fyrstu þótti mjer allálitlegt, að þingið gæti losnað við fjáraukalög, en því betur og lengur, sem jeg hugsa um það, því meiri fjarstæða virðist mjer þetta. Það hefir oft á þessu þingi verið vísað í stjórnarskrána, og er því ekki úr vegi að gera það enn í þessu sambandi.

Í 37. gr. stendur, að ekki megi greiða fje úr ríkissjóði nema fyrir því sje heimild annaðhvort í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Og mun því vægast sagt ekki vera í anda hennar, að fjárveitingavaldið sje annarsstaðar en hjá Alþingi. En það yrði það í raun og veru, ef sá siður yrði upp tekinn, að stjórnin að jafnaði veitti og ljeti greiða upphæðir, sem engin lagaheimild væri fyrir. Enda er þessi fjáraukalagaótti næsta hlægilegur, sem virðist hafa gripið einstaka háttv. þm., og undarlegt, ef þeim þætti nauðsyn til að taka af sjálfum sjer ákvörðunarrjettinn í fjármálum. En út í þær sakir vil jeg ekki fara nú, og væri þó, ef til vill, þörf á því, eftir því sem rætt hefir verið utan þings og innan. Það mun og þörf að taka svari fjárveitingavaldsins, og þá ekki síst fjárveitinganefndar, gegn ýmsum árásum, er birst hafa í blöðum og tímaritum og bera vott um lítinn skilning og enn minni ábyrgðartilfinningu. En af því að þessu máli er nú svo langt komið, sje jeg ekki ástæðu til að vekja hjer umr. um þetta, enda gefst mjer sennilega tækifæri til þess á öðrum vettvangi.

Um brtt. hefi jeg ekki annað að segja en að þar eð nefndin hefir fallist á að samþykkja frv. eins og það kom frá háttv. Ed., er hún að sjálfsögðu á móti öllum brtt. við það.