19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1923

Jakob Möller:

Örfá orð um brtt. mína.

Eins og háttv. frsm. (M. P.) drap á, þá verður ekki sagt, að það sje mín sök, að jeg varð of seinn að koma fram með þessa brtt. Það hefir verið gamall þingsiður við allar umræður fjárlaga, að þingmenn hafa verið aðvaraðir um það, hvenær þeir síðast mættu koma fram með brtt. Þetta var ekki gert nú, og því varð jeg of seinn að senda mína brtt. Jeg þykist því kveða vægt að orði, þó að jeg segi, að jeg sje nú hörðu beittur, er synjað er afbrigða fyrir þessar brtt. mínar.

Þar sem nú eru komnar fram brtt., sem ekki þarf að leita afbrigða um, og sem vafalaust verða sumar samþyktar, því deildin getur ekki sóma síns vegna látið fjárlögin fara gegnum þessa umræðu svo, að ekki komist inn brtt. hv. þm. Dala. (B. J.) um styrkinn til fjelagsins Íslendings, þá finst mjer ekki nema sanngjarnt, að mínar brtt. hefðu einnig komist að. Ef breytt verður fjárlögunum við þessa umræðu hvort sem er, þá eru þeir þingmenn ranglæti beittir, sem nú hafa orðið of seinir að koma fram með brtt. sínar, vegna þess, að fjvn. hefir af vangá ekkert tilkynt um það efni. Jeg skora því fastlega á hæstv. forseta að taka málið af dagskrá nú, svo öllum háttv. þm. gefist kostur á að koma fram með brtt. sínar á löglegan hátt.