19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg hafði ekki búist við að þurfa að taka til máls við þessa umræðu fjárlaganna, en umræðurnar hafa knúið mig til þess.

Háttv. frsm. meiri hl. (M. P.) sagði, að rjettast væri að leggja fjáraukalög fyrir þingið á hverju ári. Þar er jeg honum sammála. En þó hygg jeg, að rjett hafi verið af fráfarinni stjórn að gera það ekki nú, þar sem hún vænti sparnaðar á öllum sviðum hjá þinginu. Þær vonir hafa nú ekki ræst nema að nokkru leyti.

Jeg býst við því, að framvegis muni stjórnin leggja fjáraukalög fyrir hvert þing, enda virðist það óhjákvæmilegt, því það er augljóst, að eins og samkomutíma þingsins er háttað, getur verið óumflýjanlegt að fá heimild til fjárveitingar á þá yfirstandandi ári.

Í þessu sambandi mintist háttv. frsm. (M. P.) á 37. gr. stjórnarskrárinnar. En sú grein hefir ávalt verið skilin á þá leið, eins og háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) tók fram, að nægilegt væri fyrir stjórnina að fá heimild þingsins eftir á. Ef ekki ætti að skilja greinina svo, þá gæti stjórnin aldrei veitt neina fjárupphæð. En hjá því verður ekki komist, að stjórnin veiti nokkurt fje upp á væntanlegt samþykki þingsins. Venjulega hefir stjórnin verið varasöm í því efni. Það er helst á síðustu árum, að hún hefir þar farið lengra en góðu hófi hefir gegnt, að mínu áliti, og því get jeg skilið háttv. frsm. (M. P.), er hann barmar sjer yfir því, að stjórnin taki fjárveitingarvaldið um of í sínar hendur.

En jeg hygg, að sá ótti hans sje ástæðulaus að því er núverandi stjórn snertir. Jeg met þingræðið svo mikils, að jeg er á móti því, að stjórnin hafi mikið fjárveitingavald með höndum, og lofa því, að því er mig snertir, að neyta ekki þess valds, nema brýn þörf krefji.

Háttv. frsm. (M. P.) gat þess, að ýms mál hefðu legið fyrir í fjvn., sem brýn ástæða væri að vísa til stjórnarinnar til úrslita nú, upp á væntanlega aukafjárveitingu. Taldi hann sum þessi mál tvímælalaus nauðsynjamál. Jeg vona nú fastlega, að hann vilji benda stjórninni á þessi nauðsynjamál, ef ekki hjer í heyranda hljóði, þá að minsta kosti brjeflega eða munnlega, þó auðvitað stjórnin einungis taki þau til greina, ef hún álítur þau nauðsynleg og upp á eigin ábyrgð.

Mjer skilst reyndar, að það hafi verið venja síðustu ára, að það sje nægilegt fyrir stjórnina að hafa yfirlýstan vilja beggja fjvn. til þess að greiða ýmsar nauðsynlegar upphæðir, þó jeg viti ekki til, að slíkt hafi neina stoð í gildandi lögum. Ennfremur hefir það tíðkast að heimila stjórninni að greiða mikið fje aðeins með þingsályktunum. Að vísu má svo segja, að til komi samþykki þingsins, er upphæðir þessar eru teknar í fjárlög eða fjáraukalög eftir á, en þó finst mjer þessi aðferð harla óviðkunnanleg. Síðast í dag kom hjer fram þál.till., sem jeg að vísu er sammála, en sem heimilar stjórninni að greiða tugi þúsunda. Hefði jeg ólíku betur kunnað við, að sú upphæð hefði staðið í fjárlögum, sem auðvelt hefði verið. Jeg vænti að fá nánari skýringar á, hvernig á þessari óvenju stendur, sem leggja ætti niður sem fyrst.

Þegar jeg nú lít yfir meðferð fjárlaganna á þessu þingi, þá verður naumast sagt, að sparnaðurinn hafi verið mikill. Tekjuhallinn er í rauninni svo að segja alveg sá sami og hann var í stj.frv. Eins og háttv. þdm. er kunnugt, þá vann jeg það til sparnaðarins vegna að offra öllu fje til símalagninga og draga úr fje til vegalagninga. Gerði jeg þetta bæði af því, að hjer var um verulega upphæð að ræða og af því slíkt var í samræmi við meiri hl. þings, er jeg hugði vera. En jeg hefði orðið tregari til þessa, ef mig þá hefði grunað, að jafnhárri upphæð yrði bætt við gjöldin á ýmsum öðrum liðum, og það tvímælalaust óþarfari sumum heldur en símarnir eru. Jeg er því alls ekki eins ánægður yfir meðferð fjárlaganna eins og jeg hafði búist við í upphafi.