19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg get verið stuttorður. Hv. þm. Dala. (B. J.) þarf jeg ekki að svara, því jeg á ekki framsögu þess kafla fjárlaganna, sem hann talaði um.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að jeg hefði verið honum samþykkur um það, að ekki skyldu fram koma fjáraukalög á þessu þingi. Þetta er satt, að jeg var þessu samþykkur fyrst í stað. En brátt fór jeg að sjá, að betra hefði verið fyrir stjórnina að koma fram með sjerstök fjáraukalög heldur en að vera stöðugt að reyna að fá meðmæli þingsins með ýmsum útgjaldaliðum, sem í raun rjettri hefðu átt aðstanda í aukafjárlögum. Hygg jeg, að fjáraukalög, þó fram hefðu komið, hefðu ekki aukið útgjöld ríkissjóðs að neinum mun.

Þá vildi jeg algerlega mótmæla lofi þessa háttv. þm. (M. G.) um þingið. Hann sagði, að þetta þing hefði sýnt meiri sparsemi en áður hefði tíðkast, og færði það sem rök, að fjárlagafrv. færi frá þinginu mjög líkt því, sem það var, er það kom frá stjórninni. Jeg vil mótmæla þessum sparnaðarummælum háttv. þm. (M. G.) með hans eigin rökum. Ef þetta þing hefir sama og ekkert sparað frá stj.frv., þá er það bersýnilegt, að það hefir ekki verið sparsamara en síðasta þing. Fjárlagafrv. stjórnarinnar var algerlega sniðið eftir fjárlögum síðasta Alþingis, og lækkanirnar voru svo að segja eingöngu verðstuðulslækkanir. Um það getur hver þm. gengið úr skugga, ef hann aðeins vill bera saman fjárlagafrumvarp stjórnarinnar og fjárlög síðasta Alþingis. Segi jeg þetta ekki til ámælis þessu þingi, heldur aðeins til þess að verja síðasta þing ámæli.

Út af ummælum um 37. gr. stjórnarskrárinnar þarf jeg ekkert sjerstakt að taka fram. Hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir þegar skýrt það mál.

Jeg vil aðeins undirstrika það, að ekki er rjett fyrir stjórnina að fara aðra leið en þar er heimiluð, ef hún á kost á að fá vilja þingsins, því hjá Alþingi á fjárveitingavaldið að vera.

Nokkuð öðru máli var að gegna í þessu efni, þegar þing var aðeins háð annaðhvert ár.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) óskaði að fjvn. ljeti uppi við hann, hver af þeim fjáraukalagaatriðum, sem fyrir þinginu liggja, hún teldi tvímælalaus nauðsynjamál. Þar til er því að svara, að fjvn. hefir ekki tekið neina endanlega ákvörðun um það efni enn, og gerir það líklega ekki. En þó engin yfirlýsing komi frá fjvn., þá á stjórnin eins fyrir því að sinna þeim málum, sem hún telur tvímælalaus nauðsynjamál. Það á stjórnin að gera á eigin ábyrgð, og það veltir lítilli ábyrgð af henni, þó hún fái fyrirfram fylgi fjvn., í mesta lagi sjö manna.

Jeg er sammála hæstv. atvrh. (Kl. J.) um það, að óviðkunnanlegt sje að veita mikið fje með þingsályktunum. En það er ekkert undarlegt, þótt slíkt komi fyrir, þar sem beint er gert ráð fyrir því í þingsköpum.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (Kl. J.) sagði, að útkoman á fjárlögunum væri sú sama og verið hefði upprunalega hjá stjórninni. En þetta er ekki rjett. Gjaldahlið þeirra er á annað hundrað þúsund kr. lægri.

Viðvíkjandi áskorun hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) til hæstv. forseta um það, að hann tæki málið út af dagskrá, þá verð jeg að geta þess, að jeg hefi ekkert umboð frá nefndinni til að taka vel í þetta. Hinsvegar skal jeg fúslega játa það, að eðlilegt er, að háttv. þm. (Jak. M.) hafi farið þessa á leit, því það mun að nokkru leyti nefndinni að kenna, að till. hans kom ekki fram í tæka tíð.