19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Eftir því, sem háttv. frsm. meiri hl. (M. P.) sagði, þá mun það vera frsm. síðari hluta fjárlaganna, sem verður að svara frsm. minni hl., eða sjálfum sjer, og mun jeg láta það fyrir berast.

Mig minti, að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hefði gefið skýrslu fyrir meira en eitt ár, en hafi það ekki verið, þá hefir mig mismint, og jeg hefi þá farið eftir öðrum skýrslum. En þótt tekjurnar árið sem leið hafi ekki reynst 300% hærri en áætlað var, þá er það víst, að tekjur síðasta árs urðu 100% hærri en þær voru áætlaðar. En fjárhalli sá, sem varð það ár, stafar að miklu leyti af því, hversu mikið þá var veitt í fjáraukalögum á síðasta þingi. En nú eru engin fjáraukalög, og þótt eitthvað fje verði veitt umfram það, sem nú er ákveðið, þá eru það aðeins smáupphæðir, og þarf því ekki að óttast tekjuhalla nú af þeirri ástæðu. Þess vegna er þessi tölujöfnuður ekki annað en barnaskapur.

Jeg vil svo aðeins bæta nokkrum orðum við svar háttv. frsm. (M. P.) til hæstv. atvrh. (Kl. J.). Hann talaði um það, að stjórnin gerðist nú síðustu árin heldur djarftæk á að fara eftir till. fjvn. einnar. Þetta er alveg rjett. Það liggur að vísu næst hæstv. forsrh. (S. E.) að skýra þetta, en af því að hann er nú ekki við sem stendur, þá skal jeg benda hæstv. atvrh. (Kl. J.) á það, að orsakirnar til þessa liggja í ástandi, sem var á stríðsárunum. Þá var fjárlagaþing aðeins annaðhvert ár, en aukaþing hins vegar svo þjett, að þing var haldið á hverju ári. Eins og eðlilegt var, þurfti stjórnin þá stundum að fá heimild til skipakaupa eða einhvers annars, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögunum, og tók hún það þá á sig, í samráði við fjvn., upp á væntanlegt samþykki næsta þings. Gæti jeg talið upp mörg dæmi um þetta, en vil ekki tefja tímann með því. Var það eðlilegt, að stjórnin kysi heldur að hafa heimild frá fjvn. en alls ekki neitt, því með því hafði hún þó trygt sjer stuðning hennar í því máli á næsta þingi. Þessi venja hefir haldist síðan, enda sje jeg ekki neitt háskalegt í því, þar sem hjer er um að ræða trúnaðarnefnd þingsins, sem ræður miklu um meðferð fjárlaganna. Ætti og ekkert að saka í þessu tilliti, þótt skifti um einhverja menn í nefndinni, því fjvn. eins þings á auðvitað að skoða sig bundna við loforð þau, sem fjvn. næsta þings á undan hefir gefið. Hjer er ekki heldur að ræða um neinn nýjan sið, sem Íslendingar hafi tekið upp. Það hefir lengi verið venja úti um heim, að stjórnir landanna leiti álits fjvn. um slík mál, ef ekki er hægt að ná til þingsins. Er meira gert af þessu á hinum norðurlöndunum heldur en hjer hjá oss. Hefi jeg einmitt átt tal um þetta við hlutaðeigandi menn í Noregi. Þeir þóttust bara þurfa að leita álits þeirrar og þeirrar nefndar, til þess að gera slíkar ráðstafanir, sem þá var um að ræða. Er jeg algerlega sömu skoðunar, og finst mjer stjórnin geti með góðri samvisku borgað það fje, sem fjvn. ræður henni til.

Hvað annars viðvíkur sparnaði þessa þings, þá er jeg ósamþykkur þeim háttv. ræðumönnum, sem hafa talað um það efni. Þetta þing hefir verið mjög sparsamt — meira að segja altof sparsamt. Það hefir felt niður símana og fleira, sem með engu móti getur verið hagur að spara, og unnið sóma sínum tjón með þröngsýni sinni og nánasarhætti. Það hefir jafnan verið klifað á því, að nauðsynlegt sje að ná jöfnum tölum í fjárlögunum, sem ekki hefir einu sinni svo mikið að þýða, að vert sje að láta einn snjótitling falla til jarðar fyrir það, hvað þá menn og góð málefni. — En þó nú fjárlögin hafi hækkað nokkuð frá því, er stjórnin lagði þau fyrir, þá þarf það alls ekki að bera neitt vitni um ósparsemi þingsins, því eins og menn vita, þá liggja oft mörg útdráttarsöm mál fyrir því, sem ekki hafa komið til kasta stjórnarinnar. Hjer við bætist svo, að sá maður, sem samdi fjárlögin, er einmitt alkunnur fyrir sína miklu sparsemi — enda mun hún vera talsvert um of. Úr því svo þingið skilar þeim lægri en er þau komu frá þessum manni, þá er auðsætt, að hjer er um óholla og óleyfilega sparsemi að ræða.

Jeg skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, en vona, að þessi till. mín nái fram að ganga.