19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Guðmundsson:

Háttv. frsm. (M. P.) segir, að það hafi ekki nema fá fjáraukalagaerindi komið til fjárveitinganefndar, en þetta sýnir þá, að lítil þörf var á fjáraukalagafrv. En með þessu sannar hv. þm. ekki, að lítill sparnaður hafi orðið að því að koma ekki með fjáraukalagafrv., því að hv. þm. getur ekkert sagt um, hverjar till. hefðu komið frá öðrum þm. Jeg held því fast við það, sem jeg hefi áður sagt um þessa sparnaðarráðstöfun.

Hv. frsm. (M. P.) mótmælti því, að þetta þing hefði verið sparsamara en undanfarin þing. Um þetta get jeg nú látið þá frsm. fjárlagafrv. (M.P. og B.J.) deila, en eins og jeg tók fram fyrir stuttu, hallast jeg þar að skoðun þm. Dala. (B. J.). Hv. þm. Str. (M. P.) hjelt því fram, að í samanburði við dýrtíðina væru gjöld þessa frv. ekkert minni en gildandi fjárlaga. En mig furðar á þessu. Treystir hann sjer til að halda því fram, að 2 milj. kr. tekjuhallinn, sem er á gildandi fjárlögum, sje horfinn að mestu í þessu frv. fyrir lækkun á dýrtíðinni eingöngu? Því trúi jeg ekki. Það er þó líklega ekki úr minni hans liðið, að í þessu frv. er ekkert ætlað til vitabygginga eða símalagninga, en í gildandi fjárlögum samtals um 370 þús. kr. Og ekki getur þetta verið afleiðing minkandi dýrtíðar, því að líklega er því fremur hægt að sinna verklegum framkvæmdum sem dýrtíðin er minni. Og ef litið er á 15. og 16. gr. fjárlagafrv., verður sama uppi á teningnum. Hv. þm. (M. P.) stendur því illa að vígi með þessar fullyrðingar sínar og tilraun hans til að gera lítið úr sparnaðarviðleitni þessa þings og fyrv. stjórnar verður til þess eins að sýna það, að hann sjálfur hefir nú snúist í sparnaðaráttina, en jeg veit, að honum muni falla það illa að verða talinn með sparnaðarmönnum og streitist gegn því í lengstu lög.