22.02.1922
Neðri deild: 6. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

38. mál, sérstakar dómþinghár

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir skylt að skýra frá skoðun sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu á máli þessu, því að hann hefir ritað um það stjórnarráðinu. Hann telur óþarft að hafa sjerstök manntalsþing í umræddum hreppum. Ástæður fyrir skoðun sinni telur hann þrjár. Í fyrsta lagi það, að sími væri í Haganesvík, og því auðvelt að ná til sýslumanns á þann hátt; í öðru lagi þá gætu hreppsbúar leitað til sýslumanns um úrlausnir mála skriflega, og væri það oft heppilegra, og í þriðja lagi væri oft óþægilegt að geyma mál sín til manntalsþinga. Án þess að fara frekar út í ástæður sýslumanns eða þörf hreppanna, þá verð jeg að segja það, að jeg er samdóma hv. flm. (J.S.) um, að ekki sje rjett að neita hreppunum um það, er þeir fara hjer fram á. Mjer finst það ekki óeðlilegt, er hreppar eru útskiftir, að þeir vilji fá sjerstök manntalsþing og dómþinghár.