06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Jón Þorláksson:

Eins og hv. þdm. hafa tekið eftir, þá á jeg brtt. á þskj. 62, sem fer fram á það, að útgerðarmenn íslenskra botnvörpunga greiði aðeins lögskipaðan vörutoll af kolum til skipanna frá 1. janúar síðastliðnum að telja. Samkvæmt frv. er vörutollurinn 2 krónum hærri, og nefndin hefir fallist á að hann haldist svo til ársloka 1922. En mjer finst það ekki sanngjarnt, eins og jeg skal leiða rök að, og legg því til, að útgerðarmönnum botnvörpunga sjeu endurgreiddar þessar 2 krónur. Hefi jeg stungið upp á þessari tilhögun í því skyni, að botnvörpungaútgerðin verði undanþegin að greiða þennan viðbótarkolatoll, en aðrir þeir, sem nota þurfa kol og kaupa, greiði gjaldið samkvæmt frv.

Á meðan tollhækkunarlögin hafa staðið í gildi, hafa engir orðið jafnhart úti eins og þessi grein útgerðarinnar. Botnvörpungar nota sem sje bæði kol og salt, en aðrar greinir útgerðarinnar nota ekki kol svo neinu nemi. Þess vegna virðist mjer ekki nema sanngjarnt og rjett, að þessum útgerðarmönnum sje veitt dálítil ívilnun á undan öðrum. Þá má og benda á það, að líkindi eru til að kolatap ríkisins verði upp unnið um næstu áramót, þrátt fyrir þessa ívilnun. Og í þriðja lagi var þessi ráðstöfun um kolainnflutninginn á sínum tíma meira gerð fyrir aðra landsmenn en útgerðarmenn botnvörpunganna, og því ekki nema eðlilegt, þó að aðrir verði látnir bera kostnaðinn þetta síðasta ár, en togurunum slept.

Að síðustu má nefna þá ástæðu, sem reyndar öllum er kunn, að þessi grein útgerðarinnar stendur nú svo höllum fæti, að hún er ekki fær um að bera aukna tolla, og þarf því miklu fremur allrar þeirrar ívilnunar, sem kostur er á að veita, enda er það margt og mikið, sem hún verður að greiða, þó að hún yrði undanþegin þessum aukaskatti.