06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer getur ekki betur skilist en að það sje mikið efamál, hvort tapið á saltinu hafi verið upp unnið við síðustu áramót. Jeg veit heldur ekki, hvort nefndin hefir athugað það, að það var altaf meiningin að greiða vörutoll af saltinu. Þess vegna má ekki reikna með 8 króna tollinum, heldur kr. 5,50, þegar gert er upp salttapið. Sömuleiðis hafa ríkissjóði ekki verið reiknaðir neinir vextir, sem jeg verð þó að álíta að sanngjarnt hefði verið, því vitanlegt er, að taka þurfti stórt lán þegar saltkaupin voru gerð. Af þessum ástæðum finst mjer því hæpið að álykta, að þetta tap hafi verið upp unnið við síðustu áramót.

Jeg skal fúslega játa það, að leiðinlegt sje að þurfa að láta þennan toll halda áfram, en hvað á að segja þegar litið er á það, að árið 1922 mun verða eitt hið erfiðasta, sem hefir yfir ríkissjóð komið.

Jeg held að með bráðabirgðalögunum frá 16. nóv. 1921 hafi stjórnin ratað meðalhófið. Þau voru sett í samráði við útgerðarmenn, enda hafa þeir sætt sig við þau. Það er vitanlegt, að útgerðarmenn vildu helst enga tolla, en um slíkt er ekki að ræða, og það af þeirri einföldu ástæðu, að hjá tollum verður ekki komist, eins og fjárhag vorum er nú háttað.

Um brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) er og sama að segja, að jeg tel það mikið vafamál, að kolatapið verði upp unnið um næstu áramót, og finst mjer því óráðlegt að útgerðarmenn botnvörpunga fái þessa undanþágu.

Af þessum ástæðum verð jeg því að vera bæði á móti breytingum nefndarinnar og brtt. á þskj. 62. Því að nái þetta fram að ganga, hlýtur að reka að því, að tekjuáætlun fjárlagafrv. verður að breyta.