06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Frsm. (Jakob Möller):

Það er alveg rjett, að jeg var ekki á þingi 1919. En jeg hefi hjer fyrir mjer lögin frá þinginu 1919, og jeg lít svo á, að meining þingsins komi svo skýrt fram í þeim, að ómögulegt sje að skilja þau á annan veg en þann, sem jeg hefi haldið fram.

Að vísu skal jeg játa, að jeg hefi ekki lesið ræðu hæstv. fjrh. (M. G.), sem þá hafði framsögu þessa máls, og heldur ekki ræðu þá, sem hann nú vitnaði í. En þó að þáverandi fjármálaráðherra tæki svo til orða, að ef tollurinn yrði 8 kr., þá yrði viðbótin 7 kr., þá sannar það ekkert í þá átt, að vörutollurinn hafi ekki átt að falla niður, allra síst þegar annarsvegar eru alveg ótvíræð ummæli laganna sjálfra. Það breytir engu, hvað sagt hefir verið þá um málið. Lögin voru samþykt eins og þau hafa legið fyrir síðan og þau ákveða það skýrt, að vörutollur falli niður. Þess vegna getur það ekki náð neinni átt eftir dúk og disk að halda því fram, að hann hafi átt að haldast.

Það er líka óbeinlínis gert fyrir því, að ríkissjóður þurfi að vinna upp einhvern halla, auk tapsins, með því að láta lögin falla úr gildi um næstu áramót eftir að tapið er unnið upp, þó að með því yrði komið fram yfir þá upphaflegu fjárhæð, er tapið nam. Og satt best að segja, finst mjer ekki nema sanngjarnt, að ríkissjóður taki þátt í tapinu að sínu leyti með því að missa vörutollsins.

Þessi líkindareikningur, sem hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um, er næsta auðveldur reikningur, þegar bygt er á skýrslum síðasta árs, því að alveg óhætt er að byggja á því, að notkunin muni verða nokkuð svipuð þetta ár. Allir vita, að notkunin getur ekki orðið minni, því botnvörpungunum hefir fjölgað og útgerðin aukist til muna.

Jeg get vel skilið að hæstv. fjrh. (M. G.) vill fá vextina greidda, en eins og jeg benti á og sýndi fram á, þá verða þeir greiddir að öllu um næstu áramót.

En þegar hann var að tala um það, að ef menn vissu nú, að tapið yrði upp unnið um næstu áramót, þá þyrfti ekki að setja neitt ákvæði í lögin um afnám gjaldsins, þá var hann dálítið í mótsögn við sjálfan sig. Því eins og jeg hefi sýnt, þá er það alveg fullvíst, að tapið á saltinu hefir verið unnið upp að fullu fyrir síðustu áramót, en þó ætlaðist hæstv. stjórn til þess, að gjaldið hjeldist alt þetta ár, og ef þingið ljeti við svo búið standa, mætti stjórnin eiga það víst að fá kröfur um endurgreiðslur eftir á.

En með þessu er þá hæstv. fjrh. (M. G.) að dæma stjórnina, því vitanlega hefði stjórnin átt að fella niður salttollinn um síðustu áramót.