24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

56. mál, verslunarlóðin í Bolungavík

Guðmundur Ólafsson:

Jeg tók að athuga frv. þetta í morgun og mundi þá eftir, að samskonar frv. hafði verið afgreitt sem lög frá síðasta Alþingi. Nái þetta frv. að ganga fram, nemur það þessi áðurnefndu ársgömlu lög úr gildi. Það mun að vísu rjett, að grundvöllurinn, sem frv. frá síðasta Alþingi var reistur á, var ekki allskostar rjettur. En jeg tel óviðkunnanlegt, ef þingið tekur upp þá reglu að hleypa frv. í gegn, umræðulaust og án þess að vera athuguð í nefnd, sem eru alveg um sama efni og lög, samþykt fyrir einu ári, og nema þau úr gildi. Ber það vott um flaustur og ekki nægilega athugun háttv. þm. Er jeg ekki með þessu að leggja beinlínis á móti frv., en jeg vildi leggja til, að frestað yrði umræðum um það og því vísað til allsherjarnefndar, svo að háttv. þm. gefist kostur á að athuga það betur og ekki komi annað frv. næsta ár, er nemur þetta úr gildi, ef að lögum verður.