25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

11. mál, skattmat fasteigna

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg þakka háttv. fjhn. fyrir skjóta afgreiðslu þessa máls og það, að hún hefir getað gengið inn á grundvallarhugsun frv. Aftur á móti get jeg ekki fallist á brtt. háttv. nefndar, því að jeg get hvorki sjeð að ástæða sje til yfirleitt að vantreysta úttektarmönnum til að meta t. d. hús í kauptúnum, nje að þörf sje á að láta 6 menn meta hús til skatts í kaupstöðum. Um úttektarmennina er þess að geta, að annar þeirra er jafnan hreppstjórinn í hreppnum, og er það sá maðurinn, sem langvanastur er öllum virðingum og venjulegast einn besti maður hreppsins. Og það er sannarlega ekki meiri vandi að meta hús í kauptúni til skatts en að gera úttekt á jörð, þar sem ef til vill er stórt steinhús eða timburhús, og þó trúir löggjöfin þeim fyrir þessu. Eftir brtt. nefndarinnar er og ekkert sagt um, hvenær úttektarmenn eigi að mæta og hvenær 2 menn aðrir, en það hefði þurft að vera ákvæði um það. Og mjer er ekki ljóst, hver á að ráða þessu. Væri gaman að heyra það.

En hin brtt. nefndarinnar er ekki síður varhugaverð. Fyrst og fremst er það, að það er harla undarlegt að láta 6 menn meta hvert einasta hús í kaupstað af því að það er skattmat, þótt jafnvel sje ekki nema til eins árs, en allir baukar og lánsstofnanir og yfirleitt flestir, sem meta þurfa láta, láta sjer nægja mat tveggja manna. Samræmi matsins t. d. hjer í Reykjavík er vel sjeð fyrir með því, að til þess eru skipaðir 2 menn, sem áður voru í undirmatsnefnd hjer, og jeg get ekki sjeð, að nein ástæða sje að binda sig við öll form fasteignamatslaganna, því það eykur skriffinsku og fyrirhöfn. Jeg get ekki skilið það, að mat 6 manna á sömu húseign sje ódýrara en tveggja manna. Þar held jeg að nefndinni skjótist illilega, og jeg held því fram, að jeg þekki betur til kostnaðar fasteignamatsnefnda eftir fasteignamatslögunum en hv. nefnd, og sá kostnaður er alls ekki lítill. Kostnaður af hinu nýafstaðna fasteignamati mun hafa orðið á þriðja hundrað þúsund kr. og jeg held að mat háttv. nefndar á, hversu miklu sje afkastað á dag, sje óábyggilegt og ekki í samræmi við veruleikann.

Jeg vona því að háttv. deild felli brtt. nefndarinnar. Jeg get ekki felt mig við þessar sjerreglur fyrir kaupstaði og kauptún.

Jeg þykist vita, að nefndin muni vera mjer sammála um, að það mat, sem frv. ræðir um, nái til allra húsa; sem reist eru og reist verða eftir að síðasta allsherjarmat fór fram, og skoða jeg það samþykt, ef ekki koma mótmæli fram.