01.03.1922
Efri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

11. mál, skattmat fasteigna

Fjármálaráðherra (M. G.):

Frumvarp þetta er borið fram til þess að fá skýr ákvæði um mat þeirra fasteigna, sem meta þarf milli allsherjarfasteignamata. Og eins og kunnugt er, eru það sjerstaklega ný hús, og einnig getur komið fyrir, að meta þurfi upp eignir, sem rýrna í verði. En eftir núgildandi löggjöf er það vafasamt, hvernig fara eigi um mat á slíkum fasteignum, og fyrir þá sök er frv. þetta borið fram. Og til þess að spara kostnaðinn við matið er í frv. gert ráð fyrir, að úttektarmenn, eða tveir menn, sem sýslumaður eða bæjarfógeti tilnefnir, framkvæmi það. Því að það myndi verða of dýrt að sækja altaf fasteignamatsnefndirnar, þegar meta þyrfti einhverja nýja eign.

Mjer hefir verið bent á af einum háttv. deildarmanni, að setja þyrfti ákvæði um það, hvenær endurmat ætti að fara fram, þegar eign rýrnar í verði, og get jeg fallist á það. En þegar matið á í lengsta lagi að gilda í 10 ár, virðist eigi ástæða til að meta upp eignir nema þær rýrni töluvert í verði.

Frumvarp þetta var í fjárhagsnefnd í háttv. neðri deild, og vænti jeg, að því verði einnig vísað til sömu nefndar hjer, að umræðunni lokinni.