16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

59. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Flm. (Einar Þorgilsson):

Frv. þetta á þskj. 89 um breyting á lögum nr. 75, 22. nóv. 1907, um bæjarstjórn í Hafnarfirði, er borið fram eftir ósk bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, til þess, eins og tekið er fram í meðfylgjandi ástæðum frv., að fá samræmi í þessi lagaákvæði, bæði í kaupstöðum og sveitarfjelögum. Eftir að þessi lög um bæjarstjórn í Hafnarfirði voru samþykt 1907, hafa verið gerðar ýmsar breytingar á sveitarstjórnar- og bæjarstjórnarlögum, t. d. á Siglufirði og í Vestmannaeyjum, og eru þær breytingar, sem hjer er farið fram á um útsvarsskyldu, samhljóða ákvæðum í bæjarstjórnarlögum Siglufjarðar og Vestmannaeyja.

Ákvæðið í síðasta málslið 20. gr. getur að sjálfsögðu ekki komið til framkvæmda að því leyti, sem það kemur í bága við lög um samvinnufjelög. En væntanlega getur sú nefnd, er um frv. þetta fjallar, gert þar um þá skýringu, er nægir.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar, en vænti þess, að frv. fái að lokinni þessari umræðu að ganga til 2. umr. og til allsherjarnefndar.