15.02.1922
Sameinað þing: 1. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Minning Péturs atvinnumálaráðherra Jónssonar

Aldursforseti (S. J.):

Áður en þingstörf hefjast að þessu sinni vil jeg leyfa mjer, samkvæmt þingvenju, að minnast eins þingmanns, er látist hefir frá því, er síðasta þingi var slitið. Þessi þingmaður er Pjetur atvinnumálaráðherra Jónsson frá Gautlöndum, þingmaður Suður-Þingeyinga. Hann var fæddur 28. ágúst 1858, en andaðist hjer í Reykjavík 20. janúar þ. á.

Fyrir tveim dögum síðan vorum við staddir hjer í þessum sal að kveðja hann í hinsta sinn, og var hans þá vel og ítarlega minst. Skal jeg því aðeins minnast stuttlega á þingstarfaferil hans.

Pjetur Jónsson var fyrst kosinn alþingismaður í Suður-Þingeyjarsýslu 1894, og var æ síðan þm. þess kjördæmis. Hefir hann þannig átt sæti alls á 22 löggjafarþingum.

Hann var lengst af framsögumaður og skrifari fjárlaganefndar, eða til 1915, er gerð var breyting á nefndarstörfunum, samkvæmt þingsköpum, og formaður fjárveitinganefndar frá 1917 til þess er hann varð ráðherra atvinnumálanna.

Auk þessa var Pjetur heitinn Jónsson skipaður í þessar milliþinganefndir:

Í landbúnaðarnefnd 30. apríl 1904, skattamálanefnd 2. desember 1907 og í launamálanefnd 9. desember 1914, en hann tók aldrei sæti í þeirri nefnd, og var því annar maður skipaður í hans stað.

Á stríðsárunum átti hann og sæti í útflutningsnefnd og vann þar á meðan sú nefnd starfaði. Og formaður yfirfasteignamatsnefndar landsins var hann skipaður og vann þar þangað til hann tók við ráðherrastarfinu, en til þess var hann kvaddur af konungi 25.febrúar 1920. Ráðherrastarfinu gegndi hann þannig tæplega tvö síðustu æfiárin.

Af þessu stutta yfirliti vona jeg að sjá megi, hvað mikils trausts Pjetur heitinn Jónsson hefir notið hjá þingi og stjórn, og að starf hans hefir verið langt og margskonar í þágu þings og þjóðar. Efast jeg því ekki um, að vjer allir minnumst þessa mæta manns með samhug og þakklæti, og vottum það með því að standa upp.

En þingheimur tók undir orð forseta með því að standa upp.

Þá kvaddi aldursforseti (S. J.) sjer til aðstoðar sem fundarskrifara þá

Benedikt Sveinsson, þm. N.-Þ. og Stefán Stefánsson, 1. þm. Eyf.