22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

23. mál, prestsmata á Grund í Eyjafirði

Magnús Kristjánsson:

Það þýðir ekki mikið að jeg fari að blanda mjer í þetta mál, en viðvíkjandi till. háttv. þm. Borgf. (P. O.) vil jeg þó geta þess, að jeg álít, að hún geti ekki komið til greina. Það stendur sjerstaklega á hjer, eins og háttv. frsm. (Þorl. G.) hefir þegar tekið fram. Býst jeg við, að þessi afstaða háttv. þm. Borgf. (P. O.) stafi fremur af ókunnugleika hans en af því að hann vilji með þessu leggja stein í götu þessa máls.

Kirkjueigandinn, sem hjer ræðir um, hefir ekki farið fram á þetta af fjárhagslegum ástæðum, heldur er það sú hugsjón hans, sem hjer liggur að baki, að sameina þessa dreifðu söfnuði í þessu stóra og veglega húsi. Mjer er kunnugt um, að það er einlæg sannfæring hans, að á þann hátt muni skapast betra safnaðar- og kirkjulíf, og auk þess má telja það framför að losna við hinar gömlu hrörlegu kirkjur, sem engan veginn eru samboðnar kröfum nútímans. Jeg vona því, að þessi till. háttv. þm. Borgf. (P. O.) hafi enga þýðingu í þessu efni og að frv. verði afgreitt tafarlaust. Er auðsætt, að ekki er víst að tími vinnist á þessu þingi til að afgreiða málið í heild, og er þá lítið unnið við að fresta þessu. Tel jeg svo óþarft að ræða þetta meira, en vona, að þessi háttv. deild geri málinu sömu skil og háttv. Ed.