09.03.1922
Sameinað þing: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Stjórnarskipti

forsætisráðherra (J. M.):

Með leyfi hæstv. forseta verð jeg að hafa dálítinn formála fyrir tilkynning minni.

Rjett um þingsetning, jeg held að það hafi verið daginn fyrir, komu til mín tveir sendimenn frá Framsóknarflokknum hjer á þingi og sögðu mjer, að þeir hygðu ráðuneytið vera í minni hluta á þinginu og teldu rjett, að jeg bæði um lausn fyrir það. Í öðru lagi spurðu þeir, hvort mjer nægði ekki skrifleg áskorun frá meiri hluta þingmanna um að sækja um lausn, eða hvort jeg mundi krefjast vantraustsyfirlýsingar í heyranda hljóði, eins og undanfarið hefir verið venjulegt.

Út af fyrra atriði erindis þessa spurði jeg um það, hvernig á því stæði, að nokkrir, ekki allfáir þeirra þingmanna, sem óskað hefðu á síðasta þingi, að ráðuneytið hjeldi áfram, væru nú snúnir á móti því. Svar við þessari spurningu fjekk jeg ekki beint, en það var gefið í skyn, að orsökin væri sú, að Framsóknarflokkurinn vildi taka upp ákveðna stefnu í viðskiftamálum og verslunar, sem þeir byggjust við, að jeg myndi ekki aðhyllast. Jeg sagði, að að vísu hefði jeg lítt verið spurður um afstöðu mína að þessu leyti, en það mundi rjett til getið, að jeg væri þar á öndverðum meiði við Framsóknarflokkinn, því að jeg væri þeirrar skoðunar, að nú ætti að fella burtu þau höft á verslun og viðskiftum og aðrar ráðstafanir, er komið hefðu vegna ófriðarins, nema aðflutningshöft um stund, sjerstaklega til þess að halda uppi gengi (kurs) íslenskrar krónu, sem sjálfsagt væri að viðurkenna opinberlega.

Skildist mjer sendimenn Framsóknarflokksins búast við að geta safnað saman meiri hluta þingmanna um stefnuskrá sína í verslunar- og viðskiftamálum og fengið stjórn í samræmi þar við. Kvaðst jeg undir þessum kringumstæðum og frá þeirra sjónarmiði viðurkenna rjettmæti óska þeirra um, að ráðuneytið færi frá, og væri jeg fús til að gera ráðuneytisskiftin sem auðveldust. Auk þess tel jeg það sjálfsagt, að er ráðuneyti er orðið vitandi um það, að meiri hluti þings sje móti því, þá eigi það sjálft að gera ráðstafanir til þess að losna. En um hið síðara atriði erindis sendimanna Framsóknarflokksins, hvort jeg teldi nægilega sannaða með utanþingsáskorun meiri hluta þingmanna óskina um, að ráðuneytið bæðist lausnar, ljet jeg þess getið, að jeg teldi þá aðferð miður þinglega; rjettara væri að hafa um þetta atkvæðagreiðslu í þinginu í heyranda hljóði. Mætti sú atkvæðagreiðsla fara fram umræðulaust með öllu, okkar samverkamanns míns vegna, þótt við vissum vel, að umræður um traust eða vantraust væru okkur mjög haganlegar. Jeg er nefnilega þeirrar skoðunar, að hvert þing, hver deild hafi rjett til að láta vilja sinn í ljósi um þetta efni umsvifalaust og umræðulaust. Samt sem áður kvaðst jeg mundu bera það undir samverkamann minn, hvort við tækjum gilda utanþingsáskorun, eins og farið var fram á, og lofaði svari daginn eftir. En það væri með því skilyrði, að þeir, sem gengjust fyrir áskorununum, trygðu það um leið, að ný stjórn yrði tafarlaust mynduð, svo að við samverkamaður minn gætum verið lausir þegar eftir að meiri hluti þings hefði lýst því, að hann vildi ekki, að við hjeldum áfram. — Sendimennirnir kváðu þetta skilyrði mjög eðlilegt og koma heim við það, sem þeir töldu rjett vera. Við samverkamenn komumst svo að þeirri niðurstöðu, að við gætum forsvarað það að taka gilda utanþingsáskorun, ef þar með fylgdi trygging fyrir því, að við þá gætum verið lausir. Þetta tilkynti jeg svo sendimönnunum daginn eftir. Jafnframt tók jeg það fram, að úr því að ráðuneytisskifti ættu að verða, þá væri það afarnauðsynlegt, að þau gætu orðið sem fyrst á þinginu, vegna ýmissa mála, er flýta þyrfti, fyrst og fremst samninganna við Spán. Bað jeg því um það, að hin fyrirhugaða áskorun kæmi til mín ekki síðar en í miðri vikunn, er leið, en það drógst þangað til í vikulokin. Þá kom áskorun sú, er — kunn er orðin. Bað jeg þá um lausn fyrir ráðuneytið og hefi fengið skeyti frá konungi, sem er þannig:

„Eftir að Vjer höfum meðtekið skeyti yðar, dagsett 27. f. m., veitist yður hjer með sem forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra og Magnúsi Guðmundssyni fjármálaráðherra og atvinnu- og samgöngumálaráðherra lausn frá ráðherraembættunum í náð með eftirlaunum samkvæmt lögum vegna fyrri embætta, og óskum Vjer jafnframt, að þjer og hann annist embættisverk ráðherranna þar til nýtt ráðuneyti verði skipað.

Amalíuborg, 2. mars 1922.

Christian R.“

Á 12. fundi í Ed., sama dag, skýrði forseti frá því, að forsætisráðherra (J. M.) hefði beðið sig að tilkynna, að hans hátign konungurinn hefði veitt stjórninni lausn, en jafnframt falið henni að gegna stjórnarstörfum þar til er ný stjórn væri mynduð.