11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

37. mál, dýraverndun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Mjer þykir leiðinlegt að heyra, hvernig háttv. þdm. snúast við frv. þessu. Ef menn hefðu næmari tilfinningu fyrir þessum ómannúðlegu veiðiaðferðum, þá myndi enginn vera á móti því að reyna að leita og uppfinna aðrar sómasamlegri aðferðir, því það er einmitt það, sem frv. fer fram á. Í staðinn fyrir að reyna að bæta úr þessu, hræðast menn stjórnina og gera sjer í hugarlund, að hún muni grípa til þeirra örþrifaráða að eyðileggja með öllu þennan bjargræðisveg.

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) kannaðist að vísu við, að hjer væri ilt í efni, hvað veiðiaðferð þessa snertir, en hann treysti betur sýslunefndinni í Skagafirði að skipa fyrir um hana heldur en stjórninni. Þetta finst mjer ekki nema eðlilegt, en þingmaðurinn verður að gæta þess, að stjórnin mundi leita upplýsinga og ráða hvað þetta snertir hjá þeim mönnum, sem best skyn bera á þessa hluti, enda tók jeg það fram í fyrri ræðu minni, að stjórnin myndi að sjálfsögðu leita til sýslunefndarinnar, þm. Skagfirðinga eða annara kunnugra manna um allar fáanlegar bendingar og ráðleggingar máli þessu til lausnar.

Annars furðar mig á því, að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) skuli vera að draga úr því, að fuglaveiðiaðferðir hjer við land verði reynt að bæta. Allir vita, hver staða hans er í lífinu, og samkvæmt henni hefði mátt vænta þess, að hann tæki þessari viðleitni vel, eða að minsta kosti að hann beitti sjer ekki á móti henni.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta; menn eru sjálfsagt þegar ráðnir í því, hvernig þeir greiða atkvæði.