25.03.1922
Efri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

37. mál, dýraverndun

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Um Drangeyjarveiðarnar er það að segja, að um þær mun vera til sýslusamþykt, sem vafasamt er, að breyting fáist á með svona lögum.

Viðvíkjandi lífláti stórgripa skal jeg taka það fram, að það mun víða vera farið að skjóta þá, og vil jeg telja það til bóta. En ef á að fyrirskipa með lögum að deyða alt sauðfje með skoti, þá verður skammbyssa að vera til á hverjum bæ, og að rjett sje að koma því á, þykir mjer vafasamt. En til að skjóta stórgripi munu menn venjulegast vera fengnir að, og þarf því ekki að fylgja nein skotfærafjölgun.

Um hina aðferðina, að deyða með rothöggi, er það að segja, að hún var töluvert notuð, svo að jeg vissi til, fyrir 20–30 árum, og gafst misjafnlega. Hefi jeg sjálfur reynt hana töluvert og virtist hún ekki til bóta.

Hefi jeg svo ekki frekara um þetta að segja; get þó bætt því við, að hálsskurður mun alls ekki vera eins vondur dauðdagi fyrir skepnur eins og haldið er, og geta menn sannfærst um þetta á sjálfum sjer, þegar menn t. d. skera sig á beittum hníf, þá er það alls ekki svo mikill sársauki. Við þessa aðferð er það verst, að skepnurnar verða oft svo hræddar. En hjá því verður tæplega komist, hvaða líflátsaðferð sem notuð er.