25.03.1922
Efri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

37. mál, dýraverndun

Karl Einarsson:

Hæstv. forsrh. (S. E.) og hv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) hafa talað hjer um aflífun sauðfjár. Jeg skal eigi blanda mjer inn í það atriði málsins, þó jeg álíti, að deyðingin eigi að vera sem mannúðlegust. En hinsvegar er jeg þó hræddur við að lögbjóða skammbyssur á hverju heimili. Tel það hættulegt.

En jeg er ekki samþykkur því, sem hæstv. forsrh. og háttv. nefnd heldur fram, að almennu lögin víki fyrir samþykt þeirri, er gildir um fuglaveiði í Drangey. Það er einmitt svo með sjerstöku lögin eða samþyktir, að þau byggjast á almennu lögunum og takmarkast af þeim. Heimildarlögin gefa aðeins heimild til samþykta, en samþyktirnar mega eigi koma í bága við almenn lög. Enda hefir stjórnin oft neitað samþykkis á slíkum samþyktum, vegna þess að þær hafa komið í bága við lög. Hefir þá orðið að samræma þær betur við lögin, til þess þær gætu öðlast samþykki stjórnarráðsins.

Annars er þessi veiðiaðferð í Drangey ómannúðleg að sögn. Í Vestmannaeyjum var þessi veiðiaðferð lögð niður fyrir um 40 árum af frjálsum vilja. Og nú hefir hún verið bönnuð þar í 31 ár.

Fuglinn er nú veiddur í háfa og tekinn með berum höndum og deyddur strax. Máske veiðist minna með þessari aðferð, en jeg sje eigi, að það sje neinn skaði, þótt fuglinn sje eigi gereyddur.

En á það get jeg ekki fallist, að sjerstöku lögin í þessu tilfelli hafi meira gildi en almennu lögin.