17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

63. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg þarf eigi að vera fjölorður um þetta frv., en skal þó leyfa mjer að bæta fáum orðum við greinargerðina, sem fylgir frv.

Samskonar frumvarp og þetta var lagt fyrir Alþingi 1917. Voru þá nokkrar breytingar gerðar á því Ed., og eru þær teknar til greina í frv. því, er hjer liggur fyrir. Með þessum breytingum var svo frv. þá samþykt í Ed. með shlj. atkvæðum, en felt hjer í Nd.

Aðalástæðan til þess, að frv. var felt hjer í Nd. þá, mun hafa verið sú, að þm. munu hafa haft fregnir um það, að þá hafi verið á prjónunum áætlun um hafnargerð utan tangans, og var eðlilegt, að þeir, sem kunnugir voru staðháttum, hafi ekki viljað leggja stórfje til þess að gera hafnar- og varnargarð á Ísafirði, eins góða ytri höfn og Ísfirðingar eiga frá náttúrunnar hendi, enda eru Ísfirðingar nú algerlega hættir að hugsa um hafnarvirki utan tangans.

En umbætur á Pollinum eru nú orðnar knýjandi. Einkum þarf að gera hafskipabryggjur og fylla upp. Þrengsli eru nú orðin mikil á Eyrinni, en nauðsyn mikil á ýmsum nýbyggingum vegna útgerðarinnar.

Tel jeg því sjálfsagt að samþykkja frv. þetta óbreytt, enda hefir stjórnarráðið íhlutunarrjett um allar framkvæmdir, og að sjálfsögðu verður ekki ráðist til framkvæmda, fyr en Alþingi sjer fært að ríkissjóður leggi fram hinn tilskilda styrk.

Vona jeg, að frv. fái góðan byr hjer í gegnum þessa háttv. deild og verði að umr. lokinni vísað til sjútvn.