20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Jón Þorláksson:

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gat ekki skilið, að ríkið tækist á hendur neina skyldu með frv., ef svo færi, að náman í Helgustaðafjalli væri tæmd.

Jeg sagði, að það tæki á sig siðferðislega skyldu, og það er rjett, því að það er almenn regla, að sá, sem tekur að sjer einkasölu á einhverri vöru, tekur og á sig þá skyldu að hafa vöruna til. Og landa á milli mundi það síst talið heiður, að ríki, sem hefir einkasölu á vöru, sem hvergi fæst annarsstaðar, hliðri sjer hjá að framleiða vöruna vegna fjárhagslegrar áhættu, sem hjer mundi verða að leit að silfurbergi. Það yrði því gerð sú krafa til vor, að vjer reyndum að útvega silfurberg annarsstaðar, ef náma landsins reyndist þrotin annars mundi einkasalan hvorki verða talin eðlileg nje rjettmæt. Jeg er nú þeirrar skoðunar, að það sje óálitlegt, að ríkið skuldbindi sig á þennan hátt.

Auk þessa mundu lögin vitanlega draga úr öðrum að leita að silfurbergi, þar sem þeir hefðu enga tryggingu fyrir því, að þeir fengju nokkurn arð af því, sem þeir kynnu að finna, þegar ríkið ákvæði verðið.

Um silfurberg, sem fundist hefir annarsstaðar en í Helgustaðanámunni, er það að segja, að útlit er fyrir, að það sje ekki til neinna muna og ekki hægt að vinna það nema með talsverðum tilkostnaði, sem óvíst er, hvort borgar sig þegar til kemur.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, að því minna sem fyndist af silfurbergi, því meiri nauðsyn væri á að hindra, að það færi í súginn. Fyrst ber þó að gæta þess, hvort borgi sig að vinna það.