20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Það kom mjer nokkuð á óvart, að amast var við þessu frv. eða að brtt. kæmi fram við það.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) heldur því fram, að frv. sje óeðlilegt band á innlenda verslun með silfurberg. Mjer er með mínum besta vilja ómögulegt að sjá, að svo sje. Þeir, sem vilja kaupa „rosta“ til skrauts, gætu jafnt fengið mola fyrir því, þótt ríkið hefði einkasölu á honum. En ef ætti að hafa besta silfurberg í lausasölu innanlands, þarf betri strandgæslu, svo að ekki verði flutt út óleyfilega og fengist þannig keppinautar, sem feldu verðið fyrir ríkinu.

Það væri jafnnærri að fella frv. alveg, eins og að gera það, því svo eru kunnar krókaleiðir manna, að ekki þarf að ýta undir þá með lagafrumvörpum til þess að þeir fari þær.

Eins og kunnugt er, er silfurberg notað mjög til stríðsþarfa. Það er því ekki eingöngu verslunarnauðsyn, að landið taki þessa verslun í sínar hendur, heldur þarf það og að gæta þess, að eitt ófriðarríki hafi ekki öll not þessarar vöru, svo landið dragist ekki á þann hátt ófyrirsynju út í ófriðarhættu.

Þessa skuldbindingu, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti á, er jeg ekki hræddur við, því fari svo, að silfurberg finnist ekki, getur enginn skyldað stjórn landsins til að selja það. Hins vegar held jeg, að hver maður mundi jafnfús á að leita að silfurbergi fyrir það, því jeg hefi ekki hugsað mjer, að landið græði á þessari verslun fyrir aðra, nje að það ræni þá lögmætri eign þeirra, heldur hafi það umboðssölu á vörunni, því jeg held því fram, að það sje betra fyrir einstaka menn en að þeir selji það sjálfir, því þeir þekkja ekki, hversu dýrmætt silfurbergið er, og telja sig hafa selt vel, þó að verðið sje langt fyrir neðan gangverð.

Jeg heyri, að hjer er nokkur ótti á því, að Helgustaðanáman muni tæmd og ekki muni finnast silfurberg á öðrum landssjóðsjörðum. Þetta er aðeins spádómur. (J. Þ.: Það er eftir kunnugra sögusögn). Jeg hefi að vísu heyrt eitthvað í þá átt líka, en námaverkfræðingurinn, sem nú er fyrir austan, hefir tjáð mjer, að engin ástæða sje til að óttast það. Hann heldur að gangur af silfurbergi muni ná gegnum fjallið. (Sv. O.: Það getur ekki verið, því ekkert silfurberg hefir fundist hinumegin). Jeg þori ekki að fullyrða, að svo sje, en þá hefir þó fundist silfurberg svo nærri, að hann telur ástæðu til að ætla, að gangur muni vera þar á milli, sem og er eðlilegast.

Þó svo færi, að aðeins fyndist lítið silfurberg, þá er það fyllilega rjett, sem hv. 1. þm. Árn. (E. E.) tók fram, að þá er því meiri ástæða til að varðveita það með lögum sem þessum, en brtt. virðist mjer benda mönnum á leið til að fara kringum lögin, en jeg hygg, að þeir þurfi ekki hvatningu til þess. Það er auðsætt, að hægra er þó að hafa eftirlit með þeim fáu, sem vinna eða myndu vinna námuna, en öllum landsmönnum. Því ef einhver vildi kaupa silfurberg á þann hátt, mundi hann finna nóga leppa víðsvegar um landið, t. d. í fiskiverum og síldarstöðvum, þar sem ómögulegt væri að líta eftir þeim. Þess vegna óska jeg, að brtt. verði feld, en frv. samþykt óbreytt.

Það er engin ástæða til að fresta lögunum þangað til reynt er, hve mikið er í Helgustaðanámunni eða hvort hún muni tæmd. Þau eru sjálfsögð varúð, en geta ekki skaðað að neinu leyti, þó svo reyndist, að náman væri þorrin. Frv. er komið frá nefndinni í því skyni, að ríkið njóti sjálft þessa dýrmæta steins og einstakir menn fái meira fyrir hann en ella. Hún hafði hugsað sjer, að yfir þessa námu yrði settur steinafræðingur með sjerþekkingu á námi þeirra og hefði um leið vit á silfurbergsverslun, þannig að hann væri í sambandi við stærstu „optiskar“ verksmiðjur heimsins, svo sem Zeiss í Jena o. fl., sem kaupa þessa vöru hærra verði en seljendur hjer heima hefir dreymt um.

Nefndin hefir talið skyldu að bera þetta frv. fram og benda mönnum á þá hættu, sem stafað geti af frjálsri sölu, en njer er það ekkert sjerstakt kappsmál og má deildin, ef hún vill, fella það og hafa svo alt í sukkinu.