20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Það er viðvíkjandi strandgæslukenningu háttv. l. þm. S.-M. (Sv. O.) að jeg stend upp.

Hann sagði, að strandgæslan yrði hin sama eftir sem áður, þó að brtt. yrði samþykt.

Það er nú svo.

En við skulum gera ráð fyrir, að unnið sje í Helgustaðanámunni og á öðrum stað þar nærri, en víðar ekki. Hvort myndi þá hægra fyrir eftirlitsmanninn að líta eftir á þessum tveim stöðum eða leyfa að selja silfurbergsmola um land alt og gæta svo að, að ekkert yrði ólöglega úr landi flutt? Það er þessum hugsanagang, sem jeg vona að háttv. þdm. gjaldi varhuga við.

Brtt. opnar veginn fyrir því, að hver og einn, sem annars hefir hug á, getur haft fjölda leppa til þess að komast í kringum ríkið. Og reynsla seinni ára hefir sýnt, að þeir láta ekki á sjer standa slíkir menn. Annars virðist Ísland svo lítið í hans augum, að eins megi gæta þess alls eins og einhvers lítils hluta af því.

Hann mintist líka á, að Frakkar hefðu rekið námuna í byrjun stríðsins. Já, jeg mundi einmitt eftir því, og hefðu Frakkar vitað, hver skortur mundi verða á silfurbergi í heiminum meðan stríðið stóð, þá hefðu þeir getað unnið námuna betur og eflaust sett sig fasta hjer á landi. Og við næsta stríð er þetta einmitt að muna, svo þm. hefir bent á höfuðhættuna í þessu máli.

Þar sem þm. er stöðugt að tala um þennan silfurbergsrosta, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, þá má hann vita, að lögunum er alls ekki ætlað að ná til hans; þeir molar, sem ekki hafa rjetta krystalsgerð, eru ekki silfurberg, svo þá geta allir eignast, hvar sem er á landinu.

Þá þótti háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) undarlegt, jeg held hann hafi kallað það „kringilega krókaleið“, að menn þeir, sem eignast vildu dálítinn silfurbergsmola til þess að skreyta með skrifborð sín, þyrftu að skrifa til stjórnarinnar um það. En það er nú einmitt það „kringilega“ við þetta, að þess þarf alls ekki. Jeg hefi t. d. verslað við landsverslunina meira og minna síðan hún tók til starfa, t. d. hefi jeg keypt þar kol, en jeg hefi aldrei þurft að skrifa stjórninni um það. Jeg hefi farið rjetta boðleið og snúið mjer til skrifstofu landsverslunarinnar, eða þá forstjóra hennar. Þessi „kringilega krókaleið“1 þm. sýnir því mörgu betur grundvallarhugsun hans og hvað mikið megi á henni byggja.

Að öðru leyti þarf jeg ekki frekar um nauðsyn þessa frv. að ræða og geri ráð fyrir, að háttv. þdm. geti samþykt það óbreytt.