04.04.1922
Efri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Um þetta mál urðu allháværar og hljómmiklar umræður í hv. Nd. En jeg býst ekki við, að svo fari hjer, því að yfirleitt eru menn hjer fátalaðir og lítið hafa blöðin úr þessari deild að segja. Jeg lít svo á, að þetta mál sje alls ekkert stórmál, og skifti því í raun rjettri litlu um það. Frv. fer fram á að veita ríkinu einkarjett til sölu á öllu því silfurbergi, er unnið verður á Íslandi.

Um silfurbergsvinsluna er nú það að segja, að í eitt ár hefir verið unnið að henni í Helgustaðafjallsnámunni. En þar hefir gengið illa að ná í silfurbergið sjálft. Öll vinnan hefir farið í það að berja blágrýti eða grafa göngin inn að sjálfri námunni. Mun það nú komið vel á veg. Til þessarar vinslu hefir verið varið allmiklu fje, meðal annars 300 tn. af sementi, sem keyptar voru í mestu dýrtíðinni og svo aldrei notaðar. Svona fer oft um rekstur þeirra fyrirtækja, sem ríkið tekur í sínar hendur. Höfum vjer mörg dæmi slíks, sem óþarft er að telja hjer upp.

Í heiminum er nú mesta silfurbergsekla, og það er því í afarháu verði. Mjer er ekki kunnugt um, að silfurberg sje unnið hjer annarsstaðar en í þessari umgetnu námu. Það hefir að vísu verið reynt á nokkrum öðrum stöðum, en ekki svarað kostnaði að vinna það þar.

Með þessu frv. er því verið að setja undir leka, sem enn er ekki kominn í ljós, en getur þó einhverntíma, ef til vill, borið að, þótt mjer virðist raunar lítið útlit á því sem stendur. Aðrar námur gætu sem sje fundist og kept þá við silfurbergsnámuna í Helgustaðafjalli. Og þegar svo væri komið, gætu þessi lög orðið til gagns.

Nefndin hefir því orðið sammála um að leggja það til við hæstv. stjórn, að hún gæti alls sparnaðar við framkvæmd þessara laga. Það væri óneitanlega gaman að fá að sjá einhvern silfurbergsmola úr námunni áður en stofnað yrði til mikils kostnaðar. Ef víðar fyndust námur, sem gætu kept við þessa, þá er eðlilegt, að lög þessi yrðu notuð til að tryggja söluna og að silfurbergið geti orðið sem fjemætast, bæði fyrir ríkið í heild og einstaka þegna ríkisins.