17.02.1922
Neðri deild: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

15. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta örstutta frv. get jeg ímyndað mjer, að sje þyrnir í augum margra háttv. þm., og svo er einnig í raun og veru í mínum augum, þótt jeg fjárhagsins vegna neyðist til að bera það fram. Jeg hefi tekið það fram áður, að jeg tel það neyðarúrræði að skatta útfluttar vörur og að það kæmi ekki rjettlátlega niður, en nú á tímum verður að nota jafnvel neyðarúrræði, og má gott heita að standa ekki úrræðalaus.

Jeg vil því leyfa mjer að beina þeirri eindregnu ósk til þessarar háttv. deildar, að hún lofi þessu frv. að ganga áfram, en tel rjett, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til fjárhagsnefndar, og geri það að tillögu minni, enda munu sjálfsagt allir vera sammála um, að frv. þetta verður að lifa, að minsta kosti þangað til útsjeð er um, eða nokkurnveginn vissa fengin um, hver niðurstaða verður á fjárlögunum.