31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

15. mál, útflutningsgjald

Magnús Pjetursson:

Jeg held að jeg hafi á síðasta þingi lýst afstöðu minni til þessa máls, og þarf því ekki margt að segja

En jeg verð að játa, að mig furðar, að hæstv. fyrv. stjórn skuli hafa flutt frv. eða nokkur háttv. þm. skuli geta ljeð fylgi sitt til að afla ríkinu tekna á þennan hátt, og einmitt á þeim tíma, er framleiðslan á erfiðast uppdráttar.

Þetta frv. komst fram á síðasta þingi fyrir slys, en jeg bjóst ekki við, að nokkur stjórn hefði einurð í sjer til að leggja það fram á ný, og verð að telja það einn af markverðustu viðburðunum á þessu þingi, að svo hefir orðið.

Jeg stóð ekki upp við 1. umr., af því að jeg var sannfærður um, að nefndin myndi skera frv. niður. Bjóst jeg við, að hún væri svo vel skipuð, að það ætti þaðan ekki afturkvæmt.

Mig furðar því á, að háttv. meiri hl. skuli leggja til, að frv. verði samþykt, og að háttv. frsm. (M. K.) skuli segja, að það þurfi alls ekki að mæla með því.

Þetta kom mjer algerlega á óvart, og það því fremur, sem sami háttv. þm. tók svo rjettilega fram á dögunum við umræðu um fjárlögin, að nú skyldi það sýna sig, hvort hugur fylgdi máli um að menn vildu styrkja atvinnuvegina. — Meðmælin með þessu frv. koma því úr hörðustu átt.

Jeg hefði betur skilið, ef rætt hefði verið um að verðlauna útflutning íslenskrar vöru og frv. borið fram um það efni; það hefði sannarlega átt betur við yfirstandandi tíma.

Hv. frsm. (M. K.) kvað sýnt, að framleiðendur væru ekki á móti þessu gjaldi, því að allir nefndarmenn eigi þeirra hagsmuna að gæta. En hafa þeir þá gætt þeirra hagsmuna? Það verð jeg að bera brigður á og jeg býst við, að þeir muni á síðan einnig gera. Það er rjett, að tekjuhalli er á fjárlögunum, og það mundi auka hann, ef þetta gjald fjelli niður. En jeg þykist mega sjá, að gjaldið sje of hátt áætlað, og því muni ekki eins um það og virðist. Með því verði, sem nú er á íslenskum vörum, og líklegt er að verði, mun það varla nema 600 þús. kr.

Hv. frsm. (M. K.) kvað gjaldið lágt og munaði ekki um það. Það er ekki hæð gjaldsins, sem jeg mæli í gegn, heldur stefnan, sú stefna að íþyngja framleiðslunni með sjerstökum skatti, þegar þörf er á að styrkja hana.

Þá hefði hv. frsm. (M. K.) ekki átt að vera að vitna í skoðanir kjósenda. Jeg veit, að allir hafa vonast eftir, að gjaldið fjelli niður nú. Jeg hefi talað við marga og þeir hafa sætt sig við gjaldið þetta eina ár, í þeirri von að lögin yrðu ekki látin standa lengur. Og alstaðar er lögunum hallmælt.

Hv. frsm. (M. K.) kvað menn heldur vilja leggja á sig þetta gjald en fara á mis við allar verklegar framkvæmdir af hálfu hins opinbera. Þar til er því að svara, að mjer virðist menn verða að leggja hvorttveggja á sig, ef þetta frv. er samþykt. Þessi mótbára gegn niðurfellingu gjaldsins gat komið til mála, ef ekki hefði verið búið að skera niður allar þær verklegar framkvæmdir, sem mest hjálpa framleiðslunni, svo sem er um símana. En það hefir nú verið gert, og á þá að bæta þessu við líka?

Jeg held jeg verði svo að enda með því að taka mjer í munn þau orð, sem hv. frsm. (M. K.) viðhafði gagnvart hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), nema hvað jeg beini þeim að nefndinni og segi: „Þetta getur ekki verið alvara hjá háttv. fjárhagsnefnd“.